Í gær var greint frá því að Hilmar Kolbeinsson, 45 ára fjölfatlaður maður hafi ekki fengið viðunandi þjónustu frá Reykjavíkurborg svo mánuðum skiptir, sem dæmi hefur hann ekki verið baðaður frá því í byrjun febrúar. Greinina í Fréttablaðinu má sjá hér.
Lögmaður Hilmars, Flóki Ásgeirsson segir nú að velferðasvið Reykjavíkurborgar hafi hafnað þeim fullyrðingum og neita að brotið hafi verið á mannréttindum Hilmars.
Flóki, lögmaður Hilmars, sendi Reykjavíkurborg meðal annars erindi vegna bágrar þjónustu í garð Hilmars fyrr í vikunni þar sem fram kom meðal annars að einhver hlyti að bera ábyrgð á þeim alvarlegu mannréttindabrotum sem Hilmar hefur lýst.
Velferðarsvið hefur nú hafnað þeim fullyrðingum um að mannréttindabrot hafi átt sér stað í garð Hilmars.
„Starfsfólki velferðarsviðs er annt um notendur þjónustunnar og leggur sig fram við að koma til móts við óskir og þarfir þeirra. Í þessu máli sem öðrum verður áfram unnið af alúð að því að veita stuðning.
Velferðarsvið er bundið trúnaði við einstaklinga sem njóta þjónustu og stuðnings sviðsins og getur því ekki svarað fyrir einstök mál,“ segir meðal annars í viðbrögðum frá borginni vegna málsins.
Þá segir einnig að þjónusta við einstaklinga með miklar hjúkrunar- og stuðningsþarfir á vegum velferðarsviðs sé veitt á ýmsan hátt. Sem dæmi með því að sviðið veiti sjálft þá þjónustu sem um ræðir, geri samninga við þriðja aðila um að veita þjónustuna eða notendasamning við viðkomandi einstakling eða fjölskyldu þar sem einstaklingur fær ákveðna upphæð sem hann ráðstafar sjálfur á grundvelli mats á stuðningsþörfum.
Þá sé skýrt að grunnþjónusta á borð við aðstoð við persónulegt hreinlæti sé veitt með ofangreindum leiðum.