Borgin rekin með tekjuafgangi sem mun vaxa næstu árin – botnlaus hallarekstur ríkissjóðs heldur áfram

Snemma í þessum mánuði upplýsti borgarstjórinn í Reykjavík að rekstrarafgangur hjá borginni á yfirstandandi ári verði um 500 milljónir króna. Afgangurinn mun síðan vaxa jafnt og þétt, verða 1.600 milljónir árið 2025, 4.600 milljónir króna árið 2026, hækka í 6.700 milljónir króna árið 2027, fara í 9.600 milljónir króna árið 2028 og loks í 13.000 milljónir króna árið 2029. Samkvæmt þessum áætlunum eru rekstrarhorfur borgarinnar næstu árin mjög bjartar. Jafnvægi hefur náðst og staðan mun batna jafnt og þétt næstu árin.

Þetta stangast á við sífelldan og stöðugan róg minnihlutaflokkanna í borgarstjórn en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og hinna minnihlutaflokkanna neita að horfast í augu við staðreyndir og tala stöðugt um slæma stöðu þrátt fyrir að staðreyndirnar séu aðrar. Reynt hefur verið að gera núverandi og fyrrverandi borgarstjóra tortryggilega en staðreyndir tala sínu máli.

Sjálfstæðismenn sem stöðugt hafa rætt um fjármál borgarinnar hafa ekkert viljað ræða um fjármálastjórn ríkissjóðs undir forystu Bjarna Benediktssonar síðustu sjö árin, en ríkissjóður hefur verið rekinn með halla öll árin. Fyrir nokkrum dögum afgreiddi núverandi starfsstjórn svo fjárlög næsta árs með 70 milljarða halla. Sjötíuþúsund milljónir í halla! Það er þá áttunda hallaárið í röð á ábyrgð fráfarandi vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Á þessu tímabili hafa skuldir ríkissjóðs tvöfaldast.

Það hljómar því innantómt í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins núna fyrir alþingiskosningar að reyna að sverta fjármálastjórn borgarinnar í augum kjósenda. Upplýsingar liggja fyrir um að flokksmenn sem hringja út til kjósenda og biðja um stuðning vari annars vegar við hættu á vinstri stjórn og hins vegar við „Reykjavíkurmódeli“ sem einkennist af fjármálaóreiðu. Það er stórkostlega ósvífið að Sjálfstæðiflokkurinn sem hefur verið í sjö ára samstarfi við Vinstri græna – sem þeir slitu svo sjálfir með látum – vari kjósendur við hættu á vinstri stjórn. Þeir hafa sjálfir verið burðarásinn í vinstristjórn í sjö ár. Rétt er að rifja upp að þegar Sjálfstæðisflokkurinn leiddi Katrínu Jakobsdóttur til öndvegis í vinstristjórn þeirra í lok árs 2017 gerðu þeir einnig Steingrím J. Sigfússon að forseta Alþingis. Þeir réttu manninum sem stjórnaði því að fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins var einn manna dreginn fyrir Landsdóm þá virðingar-og valdastöðu að gegna embætti forseta Alþingis og vera þar með einn af handhöfum forsetavalds. Varla hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2017 gert ráð fyrir að þannig yrði farið með atkvæði sem þeir veittu forystu Sjálfstæðisflokksins í kosningunum!

Þegar útsendarar Sjálfstæðisflokksins hringja í kjósendur til að baktala meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur eru þeir ekki bara að ráðast á Dag B. Eggertsson, sem Sjálfstæðismenn og sérstaklega Morgunblaðið virðast hafa á heilanum, heldur eru þeir einnig að ráðast á samstarfsflokka Samfylkingarinnar í borginni, Viðreisn, Pírata og Framsóknarflokkinn sem mynda meirihluta í borginni. Hin mikla óvild í garð Dags B. Eggertssonar markast af því að í heil 14 ár hefur hann verið í forsvari fyrir meirihlutum í borginni sem hafa gert það að verkum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið úti í kuldanum, valdalaus í minnihluta. Það ærir suma flokksmenn sem muna þá tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði öll völd í borginni. Sá tími er liðinn og kemur aldrei aftur.

Vonandi leiða komandi kosningar til þess að unnt verði að mynda hér ríkisstjórn flokka sem geta unnið heiðarlega saman. Nóg er komið að illdeilum og átökum innan ríkisstjórnar sem hefur kostað landsmenn mikið. Lausatök í ríkisfjármálum hafa leitt til þenslu og skuldasöfnunar sem er helsti orsakavaldur þeirrar verðbólgu og okurvaxta sem hrjáð hefur fólk og fyrirtæki í tíð fráfarandi vinstristjórnar. Nú eru vextir og verðbólga loks á niðurleið þó hægt miði. Þökkina fyrir það eiga aðilar vinnumarkaðarins en ekki vinstri stjórn Bjarna Benediktssonar Verst að hagvöxturinn er á enn meiri niðurleið, reyndar alveg horfinn. Það er ekki góð framtíðarsýn og alls ekki góður vitnisburður um störf fallinnar ríkisstjórnar.

Kjósendur kalla eftir breytingum. Þjóðin þarf nú hvíld frá Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum.

- Ólafur Arnarson.