Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur kallar eftir því að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sinni uppbyggingu á íbúðamarkaði af sama krafti og margbreytni og Reykjavík gerir nú um stundir.
Þetta kemur fram í fasteignaþættinum Afsali á Hringbraut í kvöld, en þar segir borgarstjóri athyglisvert að borgin ein sinni fjölþættri íbúðauppbyggingu, jafnt fyrir ungt skólafólk, aldraða, fatlaða, leigjendur og eigendur, jafnt með þéttingu byggðar og nýjum hverfum í útjaðri borgarinnar, svo og í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og önnur samtök. Um fimm þúsund nýjar íbúðir heyri til nýja aðalskipulagi borgarinnar og um 700 nýjar eignir séu nú teknar í gagnið á hverju ári - og þótt vissulega megi betur gera standi þar ekki á Reykjavíkurborg. Það sé því fráleitt að tala um lóðaskortsstefnu, eins og oddviti minnihlutans í borginni hafi orðað það í vikunni; enginn málaflokkur sé ofar í huga borgarstjóra en húsnæðismál og hann vinni að því með öllum tiltækum ráðum að fjölga fjölbreytilegum húsakostum í borginni.
Hann er spurður hvort borgin selji ekki lóðir sínar við of háu verði en þær geta nú um stunddir verið allt að þriðjungur af heildarvirði eignar. Dagur svarar því til að ef borgin, rétt eins og önnur sveitarfélög í kring - og raunar dæmin sanni - lækki lóðarverð, taki verktakar mismuninn til sín og hækki sína framlegð af hverju verki. Í þessu efni sé því spurningin hvert andvirði lóðanna eigi fremur að renna til borgarinnar, altso samfélagsins, eða verktakanna.
Það er annars boðið upp á þróttmikla umræðu um fasteignamarkaðinn í Afsali kvöldsins sem hefst klukkan 21:30.