Nýlega birti formaður borgarráðs yfirlit yfir hlutfall skulda allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu af heildartekjum. Þar kom borgin langbest út en Hafnarfjörður rak lestina. Þarna var um að ræða yfirlit yfir stöðu sveitarfélaganna samkvæmt svonefndum A-hluta sem er það sem langmestu máli skiptir og segir réttu söguna um rerkstur og fjármál sveitarfélaganna.
Svo er til annað hugtak sem nefnt er B-hluti fjármála sveitarfélaga. Þar er tekið mið af fjárhag fyrirtækja og félaga í eigu sveitarfélaganna. Myndin sem B-hlutinn gefur er mjög óljós vegna þess hve mismunandi fyrirtækin eru sem þar er fjallað um. Fæst sveitarfélaganna eiga fyrirtæki sem eru svo mikilvæg að þau ráði miklu varðandi heildarmynd fjármála þeirra. Frá því er ein mikilvæg undantekning sem er Orkuveita Reykjavíkur sem er risafyrirtæki hvernig sem á það er litið. Hér er um að ræða sameinað fyrirtæki úr Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Reykjavíkur o.fl.
Orkuveitan er gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Trúlega nemur raunvirði þess mörg hundruð milljörðum umfram bókfært verð hjá eigendum. Reykjavíkurborg á um 95 prósent af fyrirtækinu á móti Akranesi og Borgarnesi.
Skuldir Orkuveitunnar eru vitanlega miklar en raunverulegar eignir þó miklum mun meiri.
Eftir að formaður borgarráðs hafði birt yfirlit sem sýnir að Reykjavíkurborg stendur langbest fjárhagslega af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, tók Eyþór Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni, sig til og birti nýtt yfirlit um skuldir umræddra sveitarfélaga þar sem búið var að bæta við skuldum Orkuveitunnar við skuldir borgarinnar. Átti þetta að sýna að borgin væri í miklum skuldavanda! Ekki nefndi hann þær miklu eignir sem eru þarna á móti vegna Orkuveitunnar og myndarlega eiginfjárstöðu!
Þarna er á ferðinni dæmi um ómerkilega pólitík sem gagnast engum. Gera verður meiri kröfur til Eyþórs Arnalds en þetta vilji hann eiga sér einhverja framtíð í stjórnmálum,hvort sem um er að ræða setu í borgarstjórn Reykjavíkur eða á Alþingi eins og hermt er að hugur hans standi til.
Þá liggur fyrir að Reykjavíkurborg mun enn bæta lausafjárstöðu sína með myndarlegum arðgreiðslum frá Orkuveitunni eins og tíðkast hefur í átatugi og hófst í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar á níunda áratug síðustu aldar.