„Ummæli borgarstjóra þar sem hann vegur að flugmönnum í sjúkrafluginu og starfsheiðri þeirra með ósmekklegum hætti komu mér svo sannarlega á óvart,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, annar tveggja formanna Hjartans í Vatnsmýrinni í samtali við Hringbraut.
\"Dagur B. Eggertsson hlýtur að átta sig á því að hann sem borgarstjóri, embættismaður getur ekki farið fram með þessum hætti eins og hann gerði á borgarstjórnarfundinum í gær. Það mun koma mér verulega á óvart ef borgarstjóri verður ekki búinn að senda hlutaðeigandi afsökunarbeiðni fyrir lok dags. Fyrir mér er þetta dæmi um málefnafátækt og sýnir mjög skýrt að menn eru komnir út í horn.“
Hér vísar Njáll Trausti til ummæla borgarstjóra í kjölfar þess að meirihluti borgarstjórnar samþykkti á borgarstjórnarfundi í gær að auglýsa að nýju deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar þar sem hin svokallaða neyðarbraut hverfur af skipulagi. Síðast á gamlárskvöld lenti sjúkraflugvél frá Akureyri með mjög veikan sjúkling á brautinni en Njáll Trausti telur að skilja megi ummæli Dags þannig að hann hafi tónað niður alvöru málsins.
Njáll Trausti beinir gagnrýni sinni gagnvart fleirum.
„Það eru síðan stór vonbrigði hvernig oddviti Pírata er að taka á þessu máli og ég verð að segja að mér finnst hann ekki virða grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð. Í því samhengi finnst mér rétt að spyrja hvort Píratar séu tilbúnir að gera þau gögn sem tilheyra þessu máli opinber þannig að allur almenningur geti gert sér betur grein fyrir því hvaða gögn er verið að nota sem koma þessu máli í svo afleita stöðu sem málið er komið í núna. „
Borgarfulltrúi ræddi á borgarstjórnarfundinum í gær að gögn málsins væru 497 blaðsíður og þetta væri með flóknari málum.
„Eftir að hafa fylgst með umræðunni í borgarstjórn í gær og hvernig fulltrúar meirihlutans fjölluðu um málið þá finnst mér vanta töluvert vanta uppá að þeir séu nægjanlega vel upplýstir. Borgarstjóri vitnaði meðal annars á fundinum í skýrslu Eflu sem fjallar um svokallaðan nothæfistíma, sem er ekki skilgreint hugtak, hvorki í reglugerðum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, né í íslenskum reglugerðum sem snúa að flugvöllum á Íslandi. Samgöngustofa tók því ekki með nokkrum hætti afstöðu til þeirrar skýrslu á sínum tíma,“ segir Njáll Trausti.
Hins vegar segir hann hafa komið fram í niðurstöðum Samgöngustofu í byrjun júlí að áhættumat Isavia nái varðandi lokun neyðarbrautarinnar ekki til almannavarnarflugs, flugvallarkerfis landins í heild sinni eða áhrif á sjúkraflugið.
„Þannig að með tilliti til þess sé nauðsynlegt að gera sérstakt áhættumat komi til þess að flugbrautinni verði lokað. Í þessu samhengi er rétt að benda á það að Rögnunefndin eða í áhættumati Isavia vegna var aldrei fjallað sérstaklega fjallað um sjúkraflugið. Það verður að teljast mjög sérstakt þar sem það er að mínu mati stærsti einstaki þáttur þessa máls.“
Þá segir formaður Hjartans í Vatnsmýrinni að Píratar hafi ekki með nokkrum hætti neinn vilja til að virða 70.000 undirskriftir landsmanna, yfir 20.000 undirskriftir kosningabærra Reykvíkinga.
„Þeir hafa fram að þessu ekki sýnt neinn vilja til að virða þann mikla meirihluta Íslendinga sem vill hafa flugvöllinn áfram í núverandi mynd. Í margítrekuðum skoðunnarkönnunum hefur stuðningurinn verið 70% meðal íbúa borgarinnar og 80% ef tekið er tillit til þjóðarinnar allrar. Nú er rétt að fá það á hreint hjá Pírötum í borginni á hvaða vegferð þeir eru í málefnum Reykjavíkurflugvallar. Gagnsæi og upplýst ákvörðunartaka eru meðal þeirra þátta sem þeir segjast standa fyrir og ég persónulega hef vel kunnað að meta þennan þátt í þeirra stefnu, er ekki kominn tími á að þeir vinni í anda sinna helstu stefnumála. Við í Hjartanu erum tilbúnir að funda með Pírötum í borginni og fara í gegnum allt það sem varðar þetta mál hvenær sem er. Við erum auðvitað ef út í það er farið tilbúnir að eiga fundi með öllum þeim stjórnmálaöflum sem vilja við okkur tala.“
Njáll Trausti er sjálfur bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og flugumferðarstjóri á Akureyrarflugvelli.