Þessa dagana blómstra mathallir á höfuðborgarsvæðinu og njóta mikilla vinsælda. Ný mathöll, Borg29, sem er til húsa í Borgartúni 29 bættist við flóruna í febrúar á þessu ári og hefur hlotið góðar viðtökur. Þar er að finna níu veitingastaði sem eru hver öðrum betri og sælkerar geta notið þess að gleðja augað og bragðlaukana.
Sjöfn Þórðar heimsækir Borg29 og hittir einn af eigendum Mathallarinnar, Björn Braga Arnarsson og annan hönnuðinn á mathöllinni Hafsteinn Júlíusson frá HAF STUDIO en hönnunin var í höndum HAF STUDIO sem er í eigu Karitasar Sveinsdóttur og Hafsteins og fær innsýn í hönnun mathallarinnar.
Að sögn Björns Braga, eins eigenda Borg29, er um að ræða spennandi og metnaðarfullt verkefni sem öflugur hópur kom að. „Í BORG29 er hægt að fá góðan og hollan morgunmat, hádegismat og kvöldmat og þess á milli getur fólk sest niður með drykk í góðra vina hópi. Markmiðið er að bjóða upp á fjölbreyttan og ljúffengan sælkeramat fyrir alla í fallegu og hlýlegu umhverfi,“ segir Björn Bragi og nefnir jafnframt að vel hafi tekist til með fjölbreytni í matarflórunni á svæðinu. „Borgartún er frábær staðsetning en þangað sækja þúsundir fólks vinnu og allt í kring eru fjölmenn íbúahverfi.“
Hönnun mathallarinnar var á höndum HAF STUDIO en Hafsteinn, segir verkefnið hafi verið mjög spennandi áskorun og skemmtilegt. „Við hjá HAF STUDIO fengum fullt traust til þess að koma með nýja og ferska strauma hvað varðar útlit og stemningu,“ segir Hafsteinn og bætir við að einn af útgangspunktunum í hönnuninni hafi verið að forðast að horfa á þetta sem hefðbundna mathöll heldur frekar skapa glæsilegan samkomustað þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og láta sér líða vel.“
Mikið var lagt upp úr góðri hljóðvist, lýsingu og loftun. Dökk loft og veggir skapa notalega stemningu í í höllinni sem og lágstemmd litapalletta sem blandast vel við hágæðaefni svo sem leður, eik og stál. Þannig ná þessir ólíku veitingastaðir að njóta sín hver fyrir sig og skapa góða samræmda heildarmynd.
Missið ekki af áhugaverðri heimsókn í Borg29 í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.