Baldur Ólafsson markaðsstjóri Bónus verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og Heimili í kvöld:
Í samfélaginu hefur orðið vitundarvakning um að nýta matvælin betur, huga að umhverfinu og minnka kolefnisspor. Á fjölmörgum heimilum hefur vistvænni lífstíll verið tekin upp og neytendur huga mun betur að innkaupum og nýtingu matvæla. Matvöruverslunin Bónus hefur verið brautryðjandi á mörgum sviðum þegar kemur að því að sporna gegn matarsóun, unnið markvisst að því að minnka sitt kolefnisfótspor og lagt sitt af mörkum þegar kemur að samfélagslegri ábyrgðog huga að umhverfisáhrifum. Baldur Ólafsson markaðsstjóri Bónus verður hjá Sjöfn Þórðar og fer yfir það sem Bónus er að gera og hvernig samfélagsábyrgð þeirra er háttað.
„Bónus var fyrsti stórmarkaðurinn sem hætti sölu plastpoka og tók inn lífniðurbrjótanlega burðarpoka,“ segir Baldur og nefnir jafnframt að Bónus hafi gefið og selt viðskiptavinum sínum hátt í 500 þúsund margnota poka sem eru vel nýttir í verslunarleiðangrum viðskiptavina.
Æ, fleiri eru farnir að nýta matvælin betur og hefur Bónus meðal annars frá upphafi selt útlitsgallaðar vörur og vörur á síðasta neysludegi með verulegum afslætti sem er mikill hvati fyrir viðskiptavini til að stunda hagkvæm matarinnkaup fyrir heimilin og um leið nýta matvælin betur. „Við fáum reglulega góðar ábendingar frá viðskiptavinum okkar um hvað við getum gert betur, saman ber sýnileika á þeim vörum sem eru á afslætti, framsetningu matvæla og umbúða,“ segir Baldur. „Við fögnum öllum ábendingum, bregðumst við og komum til móts við óskir viðskiptavina eins og hægt er,“ segir Baldur.
„Vert er líka að nefna það að Bónus er fyrsta matvöruverslunin á Íslandi til að kolefnisjafna reksturinn,“ segir Baldur og leggur jafnframt áherslu á að Bónus ætli sér að halda áfram að vera leiðandi á matvörumarkaðinum þegar kemur að því að huga að samfélagsábyrgðinni og vinna að því með viðskiptavinum sínum og samstarfsaðilum.
Áhugavert spjall við Baldur markaðsstjóra Bónus framundan í þættinum í kvöld.
Þátturinn Matur & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.