Bóndinn sem neitar að fara

 

Ég las á vefmiðlum færslu frá konu sem lenti í því í dag að faðir hennar neitaði að fara af býli sínu í þjónustuíbúð fyrir aldraða í nálægu sveitarfélagi eins og þó hafði verið ákveðið.  Móðir hennar fór ein. Karlinn sat eftir. Þetta þýðir að hjón sem hafa verið gift í marga áratugi búa nú ekki saman, sennilega í fyrsta skipti frá kynnum þeirra tveggja.

Dóttirin var í öngum sínum og lýsti í færslu sinni hve mjög þetta tæki á. Hún sagði að síðustu dagar væru þeir erfiðustu sem hún hefði lifað. Mamman væri jákvæð fyrir breytingunni en pabbinn neikvæður. Óvíst er hvernig málinu lyktar. Von aðstandenda er að hinn aldraði bóndi taki sinnaskiptum.

Eftir þessa dapurlegu frásögn fór ég að velta fyrir mér hve mörg svona álitamál koma upp árlega, innan veggja heimilanna án þess að aðrir en fjölskyldumeðlimir viti af. Að aldrað sambýlisfólk sem vegna aðstæðna og heilsu eigi erfitt með að búa við óbreyttar aðstæður en ósamkomulag komi í veg fyrir sameiginlega lausn. Taka má fram að ég þekki eitt dæmi persónulega um svona deilu. Þá hafði karlinn betur. Konan fékk ekki draum sinn uppfylltan og síðustu æviárin voru beisk og bitur.

Nefna má í þessu samhengi að rannsóknir sýna að umönnun lendir frekar á könnu kvenna en karla, það kann að hafa hér nokkur áhrif. Það hvarflar að manni að karlarnir ráði oftar örlögum beggja þegar kemur til svona deilu. Feðraveldið er þrautseigt þótt veröldin hafi sumpart breyst til bóta. Feðraveldið sér enn um sína – oft á kostnað kvenna. Innan veggja heimilanna kraumar gamall arfur misréttis sem alþjóð fær ekki veður af.

Þess vegna fannst mér gott hjá dótturinni að segja frá þessari reynslu sinni opinberlega. Það krafðist hugrekki og eflaust hafa ekki allir ættingjar hennar verið hrifnir af því. Hitt er ljóst að lítið þokast til úrbóta, hvort sem litið er á einstök tilvik eða stóra samhengið, ef álitamálin liggja óleyst í myrkrinu. Að draga mál fram úr skúmaskotum er einn hornsteinn femínískrar baráttu. Hana má ekki tala niður -  hagsmunir okkar allra eru að úrbætur eigi sér stað – feðraveldið refsar nefnilega líka þeim sem það hyglir. Það hefur í fræðunum verið kölluð skaðleg karlmennska og er eignað Ástralanum Connell.