Afdráttarlaus niðurstaða viðamikillar langtímarannsóknar á öllum dönskum börnum sem fæddust á árunum 1999 til 2010 er sú að engin tengsl eru á milli bólusetninga og einhverfu. Rannsóknin náði til alls 660.000 barna og fylgst var með heilsufari þeirra allt til ársins 2013. RÚV.is greinir frá.
Í rannsókninni var samanburður gerður á tíðni einhverfu meðal barna sem bólusett voru gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR) annars vegar og barna sem ekki voru bólusett hins vegar. Kom í ljós að enginn mælanlegur munur reyndist á hópunum hvað tíðni einhverfu meðal barna varðar.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru samhljóða samskonar rannsókn dönsku Bóluefnastofnunarinnar frá 2002, þar sem nær 540.000 dönsk börn voru rannsökuð. Það sem nýja rannsóknin hefur fram yfir hina eldri er að í henni er einnig skoðað sérstaklega hvort mun sé að finna á bólusettum og óbólusettum börnum í áhættuhópi einhverfu (t.d. börn sem eiga systkini með einhverju, börn mæðra sem reyktu á meðgöngu). Hjá þeim hópum fannst heldur ekkert samhengi milli bólusetningar og einhverfu.
Þessar tvær dönsku rannsóknir eru síður en svo þær einu sem kollvarpað hafa öllum kenningum um tengsl bólusetninga og einhverfu. Í nýju rannsókninni vísa rannsakendur til tíu annarra rannsókna, þar á meðal sex rannsókna sem beinast sérstaklega að mögulegum tengslum MMR-bólusetningar og einhverfu. Í þeim öllum er niðurstaðan sú sama: Engin tengsl eða fylgni er að finna á milli bólusetninga og einhverfu.