Bolluðu þið einhvern í morgun? Rík hefð var fyrir því að föndraðir voru bolluvendir, oftast úr litríkum pappírsræmum sem límdar eru á prik. Flengdu svo börn foreldra/forráðamenn sína með vendinum og hrópuðu: „Bolla! Bolla! Bolla!“. Þetta gerðu ófáir Íslendingar sem börn og það voru ófáir bolluvendirnir sem búnir voru til. Við ættum að halda þessum sið á lofti og upplýsa komandi kynslóðir enda hluti af menningararfleið okkar.
Skemmtilegur siður, þessi siður að vekja menn með flengingum á bolludaginn er talinn hafa borist til Danmerkur frá mótmælendasvæðunum í norðanverðu Þýskalandi og síðan til Íslands með dönskum kaupmönnum á nítjándu öld. Í upphafi taldist flenging ekki gild nema flengjarinn væri alveg klæddur og fórnarlambið óklætt, og því ekki óalgengt að börn vöknuðu snemma til að geta „bollað“ foreldra sína í rúminu. Sá sem er flengdur getur losnað undan þjáningunum með því að gefa bollu í staðinn, og fyrir hvert högg átti barnið að fá eina bollu. Einn bolla fyrir hvert högg takk fyrir.