Nýleg bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Landsdómsmálið sem varð til vegna ákæru á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði að sönnu átt að snúast um Geir og þá pólitísku aðför sem gerð var að honum með mjög takmörkuðum árangri andstæðinga hans. Hannes rangnefnir bókina LANDSDÓMSMÁLIÐ – stjórnmálarefjar og lagaklækir vegna þess að bókin er í raun linnulaus tilraun Hannesar til að hvítþvo andlegan leiðtoga sinn, Davíð Oddsson, af afdrifaríkum mistökum sem hann ber ábyrgð á sem formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í aðdraganda hrunsins og hruninu sjálfu.
Hvorki Davíð sjálfum, Hannesi Hólmsteini né klappliði þeirra mun nokkurn tímann takast að endurskrifa söguna á þann veg að Davíð Oddsson standi uppi sá sem varaði við á meðan allir flutu sofandi að feigðarósi í aðdraganda bankahrunsins,eins og Hannes reynir að halda fram í bókinni. Undan því verður aldrei vikist að Davíð ýtti hruninu af stað með framkomu sinni gagnvart fyrirsvarsmönnum Glitnis þegar þeir leituðu liðsinnis Seðlabankans við erfiðar aðstæður í september 2008. Hann lét þá ekki svo lítið að svara erindum þeirra en sannfærði ríkisstjórnina þess í stað um að taka bankann eignarnámi fyrirvaralaust. Sú yfirtaka, á broti af raunverulegu verðmæti hans, felldi bankann, gengisfelldi allar eignir íslenska bankakerfisins, setti íslenska ríkið nær í greiðsluþrot og ýtti skriðunni af stað með gengisfellingu íslensku krónunnar og hruni á gengi allra hlutabréfa í Kauphöll Íslands. Eftir það varð ekki aftur snúið.
Enginn gerir lítið úr þeim vanda sem við var að fást. Ef fagmannlega hefði verið tekið á málum á vettvangi Seðlabanka Íslands, sem gegndi lykilhlutverki við þessar erfiðu aðstæður, hefði mátt greiða mun betur úr vandamálum bankanna þannig að þeir hefðu ekki fallið eins og raunin varð. Davíð hafði forystu um afstöðu Seðlabanka Íslands en skorti þekkingu á viðfangsefninu – auk þess sem hann gat greinilega ekki setið á sér að reyna að koma fram hefndum gagnvart þeim sem hann hafði áður þurft að láta í minni pokann fyrir. Hefndarhugur hans í garð fyrirferðarmikilla manna í atvinnulífinu fór ekki fram hjá neinum. Sá hugur endurómar í texta Hannesar.
Fjöldi bóka hefur verið skrifaður um hrunið frá ýmsum sjónarhornum. Í flestum þeirra beinist athyglin að því hvernig Seðlabanki Íslands kom fram á örlagastundu og beinlínis ýtti hruninu af stað undir forystu Davíðs Oddssonar. Vert er að muna að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lét það verða eitt af sitt fyrsta verk að segja honum upp störfum í bankanum og koma honum þar út úr húsi. Ein þeirra bóka sem fjallar myndarlega um þessa örlagaríku tíma er nýútkomin bókLárusar Welding, fyrrum bankastjóra Glitnis. Hann hefur barist við afleiðingar bankahrunsins í 14 ár og komist vel frá þeirri erfiðu baráttu. Lýsing hans á framkomu Seðlabanka Íslands gagnvart Glitni í aðdraganda hrunsins er allt önnur en sú mynd sem Hannes Hólmsteinn reynir að draga upp í bók sinni í þeim tilgangi að freista þess að bæta ímynd Davíðs Oddssonar. Lárus stóð þar í miðjum storminum og veit nákvæmlega hvað gerðist og lýsir því með trúverðugum hætti í bók sinni.
Slæmt er að Hannes skyldi ekki geta fjallað um Landsdómsmálið sjálft af meiri þunga en raun ber vitni í bók sinni – sem ber þó nafnið Landsdómsmálið. Kjarninn í því máli er sá að dómstóllinn dæmdi ekki alfarið eftir lögum landsins eins og er höfuðskylda allra dómstóla. Þarft verk er að benda á það og sýna fram á með rökum að verið var að friða hluta almennings í landinu með því að hengja einhvern vegna hrunsins – verða við kröfum þeirra sem kröfðust þess að einhver yrði gerður ábyrgur fyrir þeim hörmungum sem dundu yfir almenning í landinu. Aumt var það og níðingslegt að draga einn mann fyrir Landsdóm og dæma hann svo fyrir aukaatriði eins og raun ber vitni. Dómurinn hafði þó ekki meiri sannfæringu en svo að honum var ekki gerð refsing. Segir það sína sögu.
Bókin Landsdómsmálið missir því miður marks vegna þess hvaða leið Hannes valdi að fara. Bókin fjallar því miður um allt of margt annað en sjálft Landsdómsmálið þar sem höfundurinn tekur meðal annars mikið rými í að hreyta ónotum í mann og annan í stað þess að einbeita sér að málinu sem bókartitillinn gefur til kynna að sé til umfjöllunar.
- Ólafur Arnarson.