Erfitt er að spá um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi um næstu helgi. Fjórir sækjast eftir að leiða lista flokksins í vor. Aðeins einn núverandi bæjarfulltrúa er í framboði.
Vaxandi óánægja hefur verið með flokkinn á Nesinu, en hann hefur haldið um valdataumana þar frá upphafi. Í síðustu kosningum hélst meirihluti bæjarfulltrúa á minna en helmingi greiddra atkvæða og óhætt er að segja að fráfarandi bæjarstjóri hafi mátt þola vaxandi gagnrýni. Flokkurinn ber ábyrgð á því að halli hefur verið á rekstri bæjarsjóðs í 5 af síðustu 6 árum. Styrk fjármálastjórn frá valdatíma Sigurgeirs Sigurðssonar bæjarstjóra heyrir sögunni til.
Flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins á Nesinu gerði ráð fyrir því að Magnús Guðmundsson yrði sjálfkjörinn til að leiða lista flokksins í vor, en hann er eini fráfarandi bæjarfulltrúinn sem gefur nú kost á sér.
Bregður þá svo við að þrír aðrir sækjast eftir 1. sætinu.
Svana Helena Björnsdóttir býður sig fram og fer mikinn í auglýsingum, meðal annars á öllum strætóskýlum bæjarins. Hún hefur víða sóst eftir stjórnarsetu og náði því að vera kjörin formaður Samtaka iðnaðarins vorið 2012 en tveimur árum síðar féll hún fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, sem nú er komin á þing og verðandi dómsmálaráðherra, í formannskosningu. Er þetta í eina skiptið sem formaður í einum af stóru atvinnurekendasamtökunum hefur verið felldur í kosningu. Hér er því spáð að Svana hljóti stuðning 10 prósenta kjósenda í prófkjörinu.
Þór Sigurgeirsson er sonur Sigurgeirs heitins bæjarstjóra sem margir bæjarbúa hugsa til með hlýhug. Þór er vinsæll og vel liðinn víða í bænum, meðal annars í Gróttu sem tengist flestum bæjarbúum. Þór ætti að ná 20 prósenta fylgi í prófkjörinu hið minnsta.
Úrslitin munu ráðast af því hvort Magnús Guðmundsson eða Ragnhildur Jónsdóttir verður sterkari í prófkjörinu. Magnús þykir vera býsna íhaldssamur og er af mörgum talinn hrokafullur. Hann hefur setið í bæjarstjórn og borið ábyrgð á ýmsu sem gagnrýnt hefur verið. En hann hefur „flokkseigendafélagið“ með sér - og þeir ætla ekki að missa völdin, hvað sem það kostar.
Ragnhildur Jónsdóttir þykir hins vegar mjög spennandi frambjóðandi sem ber með sér ferskan blæ. Hún yrði frambærilegur bæjarstjóri að margra mati. Hún og Bjarni Benediktsson eru systkinabörn. Fram til þessa hafa Engeyingar fengið það sem þeir hafa sóst eftir í Sjálfstæðisflokknum!
Því verður svarað í prófkjörinu um næstu helgi hvort íhaldsöflin á Nesinu haldi sjó eða hvort sigurganga Engeyinga í flokknum heldur áfram.
- Ólafur Arnarson