Bleikju- og spínatsalat með sítrónu vinaigrette sem sælkerarnir elska

Völundur Snær Völundsson, sem er að jafnaði kallaður Völli, matreiðslumaður og frumkvöðull hjá fyrirtækinu Algarum Organic sem kom með nýjar lífrænar vörur á markaðinn í síðla sumars á síðasta ári. Þær hafa hlotið verðskuldaða athygli og hráefnið er unnið á hinum fallega stað, Breiðafirði. Í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar heimsóttum við Völla heim í eldhúsið þar sem hann fræddi okkur um forsögu á þessum lífrænu vörum og töfraði jafnframt fram himneskt bleikju- og spínatsalat sem er toppað með Umami saltinu frá Algarum Organic.

FBL_Völundur Snær_bleikju- og spínatsalat - .jpg

Völundur Snær Völundarson frumkvöðull og matreiðslumeistari með meiru.

Upphaflega vinna hófst fyrir fjórum árum

„Hann Símon Már vinur minn hjá Íslenskri bláskel og sjávargróðri var byrjaður að þurrka þara fyrir fólk sem vantaði hann til ýmissa nota. Hann færði mér tvo stóra kassa fyrir fjórum árum til að prufa mig áfram með. Þá byrjaði ég að skoða hann sem hráefni í matargerð en skipti fljótlega um gír eftir því sem ég las meira um hversu ofboðslega heilnæmur þarinn er. Þannig hófst þessi vinna og ákváðum við í upphafi að hafa vöruna lífræna og 100% endurvinnanlega.“

Fimmta bragðið er í raun Umami

Völli segir eiginleika Umami saltsins umtalsverða og mikil vinna liggi að baki þróunnar vinnunnar sem unnin hefur verið hjá Algarum Organic. „Umami er í raun fimmta bragðið, en tungan skynjar sætt, salt, súrt og beiskt síðan er umami fimmta bragðið sem var skilgreint 1908 og þá úr dashi soði sem inniheldur einmitt kelp eða þara. Umami er undirliggjandi bragð sem má í raun kalla bassann í bragðinu. Þessu bragði verður ekki náð með einhverjum samsetningum heldur liggur það í þangi og þara. Þess vegna þróuðum við blöndu af söltum sem inniheldur mismunandi tegundir af þara og gefur þetta einstaka undirliggjandi bragð.“

Þaraduftið og hylkinn eru 100% lífræn unnin úr íslenskum þara

En hvað er það sem gerir þaraduftið og hylkinn svo eftirsóknarverð? „100% lífræn, vegan og í 100% endurvinnanlegum og niðubrjótanlegum umbúðum. Þari er í raun eina plöntu- eða jurtategundin sem inniheldur joð sem er líkamanum lífsnauðsynlegt. Í vörunni er eingöngu íslenskur handtíndur 100% lífrænt vottaður þari en eitt stærsta yfirvofandi heilsufarsvandamál í heiminum í dag er joðskortur og í fyrsta skipti mælist joðskortur hér á landi. Fólk borðar almennt minna af fiski og joðskortur hefur áhrif á skjaldkirtilinn og hormónastarfssemina sem hefur margvísleg einkenni á borð við þreytu, slen, þyngdaraukningu og þunglyndi.“ Við fengum Völla til að deila með okkur uppskriftin af einu af sínu uppáhalds salötum með sjávarfangi sem tilvalið er að njóta eftir hátíðarnar, ljúffengu bleikju- og spínatsalati með sítrónu vinaigretta sem bragð er af. Hægt er að sjá þáttinn með Völla hér: Matur & Heimili

Bleikju- og spínatsalat með sítrónu vinaigrette

Fyrir 4

2 bleikjuflök

½ haus spergilkál - skorið í minni bita

2 tómatar - skornir í báta

½ gúrka - skorin í sneiðar

1 poki spínat

4 radísur - þunnt skornar

1 hnúðkál - skorið í þunnar sneiðar

1-2 gulrætur - skornar í strimla

1 appelsína - skorin í lauf

Sítrónu vinaigrette

Safi úr ½ sítrónu

200 ml grænmetisolía

1 msk. ólífuolía

Ocean Umami salt eftir smekk

Best að byrja á því að elda bleikjuflökin eða jafnvel nota afgang af bleikju ef þið hafið verið með hana í matinn kvöldið áður. Penslið eldfast mót með olíu og setjið bleikjuflökin í ofn á 180°C gráður í 10 mínútur og látið kólna. Skafið svo litla bita af roðinu í skál. Setjið spergilkálið í eldfast mót með 1 msk. ólífuolíu í ofn á 180°C gráður í 5 mínútur og látið kólna. Á meðan bleikja er að bakast og kólna er upplagt að undirbúa sítrónu vinaigrette og salatið.

Byrjið á því að búa til Sítrónu vinaigrette. Kreistið safa úr hálfri ferskri sítrónu, bætið við grænmetisolíunni og ólífuolíunni og piskið vel saman. Í lokin bætið þið við Ocean Umami saltinu eftir smekk og smakkið til.

Því næst er það salatið. Byrjið á því að setja spínatið ásamt spergilkálinu sem búið er að skera í litla bita á stóran disk, má vera djúpur sem passar vel fyrir salat með sjávarfangi eins og þetta. Síðan dreifa restinni af grænmetinu yfir. Þegar bleikjuflökin hafa kólnað er tilvalið að skera flökin í hæfilega munnbita og dreifa í salatið. Loks setja appelsínulaufin sem gera salatið bæði litríkara og beiska og súra bragðið gerir salatið enn betra. Loks er salatið toppað með sítrónu vinaigrette sem gerir gæfumuninn og bragðlaukarnir njóta sín til fulls. Berið fram á fallegan og aðlaðandi hátt.