Hún var krúttleg fréttin um daginn þar sem Rúv sagði okkur að fæðingum hefði fækkað mjög á stærstu spítölum landsins og yrði að fara langt aftur í tímann til að finna eins lága fæðingartíðni.
Krúttleg, segi ég en með skvettu af kaldhæðni.
Það var nefnilega þannig að eftir að hrunið skall á, fórum við Íslendingar að búa til börn sem aldrei fyrr. Kannski vegna þess að þá var meiri tími. Minni atvinna, meiri tími fyrir fjölskyldu. Ný hugsun kannski? Meiri andleg hyggja, minni ásókn í efnisleg gæði.
Það var í raun og veru bara eitt sem engin fræði gátu svarað. Í kreppum er það að jafnaði þannig að fæðingartíðni lækkar í nágrannalöndunum. En hér tók hún stökk þegar við fórum flest hver nálægt hungurmörkunum. Í Bandaríkjunum og víðar er það talin afar stór ákvörðun að leggja í barneignir og upplýst fólk tekur ekki slík skref nema eiga pening.
En hér bara dúndrum við sem aldrei fyrr, skítblönk. Vitum að við búum í góðu landi. Þetta reddast!
Svo þegar blússandi góðæri ríður yfir landið sbr. ummæli bankastjórans fyrir skömmu, nenna fæstir lengur að eignast börn. Upptekin af öðru kannski? Rolex? Aspen?
Hvað veit ég? A.m.k. er krúttlegt að við þjóðin skulum enn ganga aðrar götur en nágrannaþjóðirnar. Það skal enginn segja það sem við óttumst mest.
Að við Íslendingar séum ekki spes!
Bara eitt kannski smá sem mætti e.t.v. velta aðeins yrir sér. Hugsum við barneignir út frá hagsmunum okkar sjálfra eða barnanna?
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)