Hálfum mánuði fyrir kosningar mun Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafa látið þau orð falla á fundi hjá Félagi löggiltra endurskoðenda að tillögur Viðreisnar um að festa íslensku krónuna við evru væru „að einhverju leyti vanhugsaðar“ og kölluðu jafnvel á hærri stýrivexti Seðlabankans.
Tveimur dögum fyrir kjördag blésu Morgunblaðið og Viðskiptablaðið ummælin upp úr öllu valdi, teygðu og toguðu á sinni hátt. Engum dylst að uppslátturinn í þessum hægri málgögnum og tímasetning hans var til að koma höggi á Viðreisn. Ekki þarf heldur mikla rýnigáfu til að átta sig á að þarna var skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins að verki enda er sú deild vel völduð inni á ritstjórnum þessara blaða.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem seðlabankastjóri fer út fyrir verksvið sitt með því að blanda sér í umdeilda þjóðfélagsumræðu eins og hann gerði með því að tala um klíkur og valdabrölt hagsmunaaðila án þess að skýra hvort hann átti við verkalýðsforystuna, frammámenn í atvinnulífinu eða stjórnmálamenn. Yfirlýsingar hans voru þá óskýrar og vanhugsaður og gáfu kost á mismunndi túlkunum. Seðlabankastjóri getur ekki boðið upp á slíkt ef hann vill láta taka sig alvarlega.
En hvað sagði seðlabankastjóri eiginlega um tillögur um að festa gengi krónunnar við evru?
Ásgeir talaði um að 1989 hefði krónan verið tengd við ECU, forvera evrunnar, og að það fyrirkomulag hefði gengið á þeim tíma vegna þess að fjármagnshöft hefðu verið. Staðan væri önnur nú.
Ásgeir sagði Seðlabankanum ómögulegt að halda fastgengi við evru nema með því að leggja allan gjaldeyrisforðann að veði, samkomulag þyrfti við verkalýðsfélög um að krefjast ekki meiri launahækkana en tíðkast í Evrópu, auk þess sem ríkisstjórn þyrfti að miða fjárlög við að halda jafnvægi á genginu. Jafnvel þetta væri ekki trygging fyrir fastgengi vegna þess að spákaupmenn gætu gert áhlaup á krónuna. Vextir gætu hækkað til að verja gengið.
Greinilegt er af þessum orðum að annaðhvort hefur seðlabankastjóri ekki kynnt sér til hlítar þær hugmyndir sem settar hafa verið fram um tengingu krónunnar við evru eða kýs að snúa út úr þeim. Nema, sem er líklegast, skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins snúi út úr orðum seðlabankastjóra.
Tillögur Viðreisnar ganga alls ekki út á að festa gengi krónunnar við evru einhliða. Seðlabanka Íslands er ekki ætlað að viðhalda fastgengisstefnu. Þær ganga út á gagnkvæmt samstarf við ESB um að festa gengi krónunnar við evru með stuðningi Evrópska Seðlabankans. Staða bankastjóra Seðlabanka Íslands yrði önnur og veigaminni en nú er. Seðlabanki Evrópu tæki að sér að tryggja gengisstöðugleika hér á landi. Vitanlega myndi þetta setja íslenskum stjórnvöldum skorður þegar kemur að ríkisfjármálum. Agaleysi í ríkisfjármálum er raunar mikið hér á landi og því þarf að ráða bót á hvort sem við göngum til samstarfs við ESB um tengingu krónunnar við evru eða ekki.
Seðlabankastjóri vísar til þess að 1989 hafi verið hér fjármagnshöft og þess vegna hafi verið hægt að tengja krónuna við stöðuga erlenda mynt, en nú sé ólíku við að jafna. Samt eru einungis liðnir nokkrir mánuðir síðan Alþingi færði Seðlabanka Íslands viðamiklar heimildir til að grípa til fjármagnshafta – ekki til að tengja krónuna við stöðugan gjaldmiðil heldur einmitt vegna þess að krónan er óstöðugur gjaldmiðill sem aðeins stenst innan múra fjármagnshafta. Krónan er sveiflukenndur hávaxtagjaldmiðill sem kostar íslensk fyrirtæki, heimili og ríkissjóð 200 milljarða á ári hverju og dregur úr samkeppnishæfni Íslands og skaðar lífskjör almennings. Samstarf við ESB um að festa gengi krónunnar við Evru miðar að því að auka samkeppnishæfni Íslands og bæta lífskjör. Krónan er þjóðinni dýrkeypt.
Seðlabankastjóri verður að gæta orða sinna. Raunar verða embættismenn að stíga varlega til jarðar þegar kemur að yfirlýsingum og ummælum sem geta haft pólitískt gildi. Embættismenn ríkisins sem vilja að hafa pólitísk áhrif eiga ekkert með að beita embættum sínum í þeim tilgangi. Þeim ber segja af sér embætti og bjóða sig fram í kosningum.
- Ólafur Arnarson