Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og stoltur fjögurra barna faðir, skrifar opið bréf til Arnar Þórs Jónssonar lögmanns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, að biðja hann um að láta „börnin okkar“ í friði og hætta að skapa ótta í samfélaginu og veikja tiltrú á vísindi og framfarir í læknavísindum.
Arnar Þór sendi langt opið bréf fyrir hönd samtakanna Frelsi og ábyrgð til fjölda einstaklinga og stofnana þar sem kennarar voru meðal annarra spurðir hvort þeir vildu bera ábyrgð á bólusetningu grunnskólabarna ef allt færi á versta veg. Bréfið hefur verið harðlega gagnrýnt.
Þórólfur hafi reynst foreldrunum vel
Björn Ingi segist í hjartnæmum pistli hafa einstaka reynslu af heilbrigðiskerfinu; þrjú börn hans þurftu ummönun vegna barnaastma, dóttir hans þurfti að liggja á gjörgæslu í krítískri stöðu vegna lungnabólgu og RS veirunnar, næstyngsti sonurinn varði fyrstu vikum ævi sinnar á vökudeildinni og þegar elsti sonurinn var fárveikur hafi barnalæknirinn Þórólfur Guðnason reynst foreldrunum vel.
„Kærleikurinn sem frá þeim lækni stafaði gagnvart veiku barni, fæst ekki kenndur í neinum skóla. Hann kom beint frá hjartanu,“ skrifar Björn Ingi sem áréttar að hann sé ekki sérfræðingum í bólusetningum en samkvæmt tölfræðinni væri ávinningurinn af vörninni langt umfram áhættunni af aukaverkunum.
Sjálfur segist Björn Ingi hafa farið með dóttur sína á heilsugæsluna til að fá nokkrar sprautur sem tilheyrðu bólusetningu barna og þar bauðst þeim líka að fá bólusetningu gegn hlaupabólu, nokkuð sem fólki á hans aldri bauðst ekki í æsku. Hann hafi samþykkt bólusetninguna þar sem hann treysti hjúkrunarfræðingum sem og heimilislækninum og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.
„Þvílík undur sem læknisfræðin er, að geta forðað tugum eða hundruðum barna frá alvarlegum veikindum eða dauða árlega með svo einföldum og fyrirbyggjandi hætti!“
Ósmekkleg leið til að vekja athygli á sjálfum sér
Björn Ingi segir foreldra, kennara, skólastjórnendur alltaf tka hagsmuni barna sinna umfram sínum eigin og því þyki honum bréf sem Arnar Þór sendi fyrir hönd samtakanna Ábyrgð og frelsi vera vægast sagt ósmekklegt.
„Það er því ósmekklegra en auðvelt er að koma í orð, að varaþingmaðurinn og lögmaðurinn Arnar Þór Jónsson hafi enn einn ganginn fundið aðferð til að vekja athygli á sjálfum sér með því að senda harðort bréf á foreldra barna, skólastjórnendur, kennara og fjölmarga fleiri aðila til þess að vara þá við bólusetningum sem börnum bjóðast nú vegna COVID-19. Fyrir hönd samtaka sem kölluð eru „Ábyrgð og frelsi“ eru kennarar meðal annars spurðir hvort þeir ætli að bera ábyrgð á bólusetningu grunnskólabarna ef allt fer á versta veg,“ skrifar Björn Ingi.
Þurfa ekki aðstoð frá varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins
Björn Ingi tekur fram að gagnrýn hugsun sé af vinu góðu en hún þurfi að byggjast á staðreyndum en ekki dulbúnu trúboði. Foreldrar þurfi ekki aðstoð frá varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins í málum sem hann hafi enga sérþekkingu á.
„Þetta er maðurinn sem vill ekki að smitaðir séu í einangrun, vill að fólk hafi frelsi til að smita aðra og efast um réttmæti PCR-prófa þótt þau séu mælikvarða allra landa sem við berum okkur saman við, til að meta smit eða ekki smit. Hvernig haldið þið að ástandið í faraldrinum væri, ef við hefðum hlustað á þetta?“ spyr Björn Ingi.
„Hvort ætlum við Íslendingar að fylgja ráðum Þórólfs eða Arnars Þórs? Fyrir mér liggur svarið í augum uppi.“