Björgólfur hlýtur að biðjast afsökunar

Björgólfi Jóhannssyni formanni Íslandsstofu varð illa á í messunni þegar hann kom fram í fjölmiðlum með vanhugsaðar aðdróttanir í garð WOW-air og Samgöngustofu. Gamli Icelandair-forstjórinn gleymdi sér aðeins í gleðinni þegar flest benti til þess að dagar WOW væru taldir og ekkert væri framundan annað en gjaldþrot.

 

Björgólfur má ekki gleyma því að hann gegnir stöðu formanns Íslandsstofu sem er stofnun sem á að gæta hagsmuna allra sem eru í útflutningi á vörum og þjónustu frá Íslandi. Íslandsstofa er ekki bara rekin fyrir hagsmuni Icelandair þó sumir virðist stundum halda það. Í ljósi stöðu sinnar hefði Björgólfur átt að gæta sín og sleppa því að blaðra um viðkvæma stöðu WOW eins og því miður of margir hafa gert undanfarna daga. Björgólfur hefur vissa stöðu sem formaður Íslandsstofu og því verður að gera allt aðrar og meiri kröfur til hans en annarra sem finna þörf hjá sér til að fjalla um vanda WOW með órökstuddum og óábyrgum hætti. Að þessu leyti er reginmunur á stöðu hans og t.d. Jóns Karls Ólafssonar og Steins Loga Björnssonar sem einnig hafa fundið þörf hjá sér til að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum vegna málsins. Orð þeirra tveggja vega ekkert umfram að vera almennt blaður manna sem standa ekki fyrir neitt annað en að vera „fyrrverandi“ eitthvað.

 

Björgólfur, Jón Karl og Steinn Logi eiga það sammerkt að hafa allir verið forstjórar eða framkvæmdastjórar Icelandair og verið settir af sem stjórnendur hjá félaginu. Í ljósi ferils þeirra þar er í hæsta máta óviðeigandi að þeir stigi fram á viðkvæmum tíma til að tjá sig glannalega um WOW, Samgöngustofu og Ísavía eins og þeir hafa gert. Það hefði verið mun smekklegra hjá þeim að sleppa því.

 

Staða Björgólfs er allt önnur en hinna tveggja vegna formennsku hans hjá Íslandsstofu. Hann ætti að biðjast afsökunar á frumhlaupi sínu. Annars má ætla að fram komi kröfur um að hann víki sem formaður Íslandsstofu.