Bjartasta von framsóknar kemst ekki á þing

Ef úrslit kosninganna um næstu helgi verða í samræmi við skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem Morgublaðið birti um helgina, þá mun Framsóknarflokkurinn ekki fá neinn þingmann kjörinn í Reykjavík eða í SV-kjördæmi. Fylgi flokksins er allt á landsbyggðinni.

 

Könnun Félagsvísindastofnunar byggir á mjög stóru úrtaki og líta verður á hana sem mjög marktæka vísbendingu. Samkvæmt þessari könnun fær Framsókn 7,1% atkvæða og 5 þingmenn kjörna. Það þýðir að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, næði ekki kjöri í Reykjavík því þessir 5 þingmenn kæmu allir úr landsbyggðarkjördæmunum, tveir úr Suðurkjördæmi, aðrir tveir úr N-Austur og einn úr N-Vesturkjördæmi. Þar með kæmist Lilja ekki á þing en hún er af flestum talin “bjartasta vonin” í Framsóknarflokknum og jafnvel “eina vonin” til að koma á friði og sáttum í flokknum í framtíðinni.

 

Kosningabarátta Framsóknar hefur einkennst af nokkurri örvæntingu. Formaður flokksins hefur slegið fram lítt hugsuðum tillögum eins og “svissnesku leiðinni” í fjármögnun húsnæðiskaupa fólks sem kaupir íbúð í fyrsta sinn. Þessi leið gengur út á að láta fólk ráðstafa hluta af lífeyrissparnaði sínum í annað en lífeyrissparnaður er ætlaður til. Hann er einungis ætlaður til að tryggja fólki sem best eftirlaun við starfslok. Önnur ráðstöfun á lífeyrisréttindum gerir ekki annað en skerða lífeyri fólks þegar sá tími kemur.

 

Þá hefur Framsóknarflokkurinn birt auglýsingar sem ganga út á óljósa gagnrýni á lífeyrissjóðina í landinu. Gjalda ber varhug við öllum tillögum stjórnmálamanna um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu því þær eiga það allar sammerkt að þær skerða réttindi sjóðsfélaga og ganga út á að ná sem mestu af lífeyrissjóðunum undir ríkisvaldið á kostnað sjóðsfélaganna.

 

Lífeyrissjóðirnir eru í eigu fólksins í landinu, kjósendanna sjálfra. Þeir þurfa að vera vel á verði gagnvart hættulegum tillögum frambjóðenda sem leita allra leiða í örvæntingu til að ná til sín fylgi í komandi kosningum.

 

 

Rtá.