Einu gildir þótt rifist sé um áherslur þjóðmála, jafnt í fjölmiðlum sem á samfélagsmiðlum. Tölur segja sína sögu um bata íslenskra heimila undanfarið og Hagstofan hefur nú birt nýjar tölur um árið í fyrra.
Þar segir að samkvæmt skattframtölum hafi eiginfjárstaða allra fjölskyldugerða batnað samtals um 14,4%, milli ára eða úr 2.194 milljörðum kr. í 2.510 milljarða kr. Miðað við eiginfjárstöðu í fasteign nam batinn 13,7% og miðað við annað eigið fé nam aukningin 17,2%.
Mesta aukningin er hjá barnafjölskyldum sem hlýtur að vera þjóðinni sérstakt gleðiefni. Heildareiginfjárstaða einstæðra foreldra batnaði um tæp 97% árið 2014 og hjóna með börn um rúm 22%. Eiginfjárstaða einstaklinga batnaði um tæp 15% og hjóna án barna um 10,5%. Eiginfjárstaða milli ára batnar mest í aldurshópunum 25-44 ára eða á bilinu 36 - 253%.
Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkar einnig töluvert. Árið 2014 voru 11.644 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign eða rúmlega 27% færri en árið 2013 og nam neikvæð eiginfjárstaða þeirra í fasteign að meðaltali 4,4 m.kr.
Eignir einstaklinga jukust um 7,1% milli ára eða úr 4.121 milljarði kr. í 4.412 milljarða kr. Verðmæti í fasteignum hækkaði um 8,3% frá árinu 2013 sem rekja má að hluta til hækkunar fasteignamats milli ára.
Heildarskuldir námu 1.902 milljörðum kr. í árslok 2014 og minnkuðu um 1,3% frá fyrra ári einkum vegna skuldalækkunar einstæðra foreldra og hjóna með börn. Skuldir einstæðra foreldra drógust saman um 3,2% og hjóna með börn um 2,9% en jukust hins vegar hjá hjónum án barna um 0,5% og 0,1% hjá einstaklingum.
Íbúðalán námu 1.251 milljarði kr. og jukust um 0,7% milli ára. Aukning íbúðalána var einkum í eldri aldurshópunum, eða um 8,5% hjá 67 ára og eldri og á bilinu 1,5% - 5,2% hjá 50-66 ára.
Á móti þessu kemur að vaxandi íhlutun þeirra sem eiga mesta peninga getur skekkt lýðræði og er áhyggjuefni í samfélaginu en þeir sem kalla núverandi stjórnvöld aðeins ríkisstjórn ríka fólksins verða kannski að leita nýrra frasa.
Sannarlega er bjartara yfir heimilum landsins en um langt skeið samkvæmt tölum Hagstofunnar. Hafa landsmenn glaðst af minna tilefni.
Ríkið er aftur á móti stórskuldugt og fer næstum fimmta hver króna í vexti af lánum. Sala ríkiseigna er ekki lausnin heldur ráðdeild og markviss efnahagsstjórnun. Markmiðið ætti að vera að viðhalda sem mestum jöfnuði meðal Íslendinga.