Náttfari telur sig hafa traustar heimildir fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi ætli ekki að hafa prófkjör fyrir komandi kosningar. Ætlunin er að stilla upp lista í kjördæmi formannsins.
Ástæðan mun vera sú að prófkjör flokksins fyrir kosningarnar 2013 misheppnaðist að mati flokkseigenda. Bjarni Benediktsson formaður fékk þá einungis 50% í fyrsta sætið og þótti það afar veikt. Þá tókst ekki að koma Jóni Gunnarssyni í annað sætið eins og til stóð. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vann sætið með yfirburðum. Það þótti ekki gott þar sem hún er frekar Evrópusinnuð, sem telst ekki til kosta í flokknum.
Ýmsir aðrir ókostir fylgdu niðurstöðum síðasta prófkjörs. Uppgangur Vilhjálms Bjarnasonar fór í taugarnar á mörgum flokkshestum. Hann er mjög sjálfstæður og lætur ekki vel að stjórn, auk þess að vera Evrópusinnaður. Í Sjálfstæðisflokknum er ekki lengur rými fyrir sjálfstæða forystumenn. Þá hefur Elín Hirst ekki náð góðu sambandi við þingflokkinn. Hún hefur verið sett til hliðar og ekki fengið að spreyta sig á verkefnum í þinginu sem hún telur sér samboðin. Þá þótti það veikja framboðið að enginn fulltrúi frá Hafnarfirði var ofarlega á lista.
Bjarni Benediktsson vill losna við óþægindin sem fylgja prófkjörum. Hann vill ráða listanum í kjördæmi sínu sjálfur. Takist honum það er ljóst að þá yrði Jón Gunnarsson í 2. sæti á eftir formanninum og svo yrði að finna nýja konu í 3. sætið því hvorki er gert ráð fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur né Elínu Hirst á listanum. Ragnheiður verður 68 ára á kosningaárinu og er talið að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri. Fari hún fram á annað borð þá yrði það væntanlega fyrir Viðreisn. Forystan vill Elínu Hirst út.
Flokkurinn þarf að finna konu í 3. sætið. Hugsanlega verður hún sótt inn í sveitarstjórnarpólitíkina en þar á Sjálfstæðisflokkurinn nokkrar frambærilegar konur í kjördæminu, svo sem Rósu Guðbjartsdóttur í Hafnarfirði, Karen Halldórsdóttur í Kópavogi og Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra á Seltjarnarnesi. Ekki er vitað hvort einhver þeirra sækist eftir þingsæti.
Í röðum flokkseigenda er mikil löngun til að koma Óla Birni Kárasyni á þing. Mikið hefur verið reynt í prófkjörum en án árangurs. Hann hefur frekar takmarkaðan kjörþokka, ef nokkurn. Verði honum stillt upp í 4. sætið þá yrði það lokatilraun til að fá hann kjörinn á Alþingi. Víst er að ekki myndi það vekja almenna hrifningu í kjördæminu.
Svo hljóta menn að velta því fyrir sér hvort formaður flokksins er með einhver spennandi spil í erminni.
Hver veit?