Miklar kenningar eru í gangi varðandi stjórnarmyndunarviðræður sem nú standa yfir milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Formenn flokkanna hafa sýnt þá sjálfsögðu skynsemi að segja sem minnst við fjölmiðla eftir að formlegar viðræður hófust. Ríkisstjórnir hafa aldrei verið myndaðar í fjölmiðlum. Því meiri frið sem flokkarnir fá fyrir ágangi fjölmiðla, þeim mun meiri líkur eru á árangri.
Ýmsir reyndu að lesa einhver teikn í það hvernig Bjarni Benediktsson valdi fólk með sér í viðræðuhóp sinn. Engir þungaviktarmenn voru þar, einungis aðstoðarmenn hans úr ráðuneytinu og svo ritari flokksins sem er væntanlega valin í nefndina í forföllum Ólafar Nordal varaformanns sem dvelur á sjúkrahúsi vegna veikinda.
Össur Skarphéðinsson hefur birt greiningu sína á þessu vali formanns Sjálfstæðisflokksins og dregur engar stórar ályktanir af því, umfram það að Bjarni vilji hafa vinnufrið til þess að geta samið sjálfur um erfiðustu málin í stað þess að hafa ákafa hagsmunagæslumenn gegn breytingum við borðið. Sjá meðfylgjandi umfjöllun Eyjunnar um málið:
Kjarninn í greiningu Össurar er sá að Bjarni vilji ljúka við stjórnarsáttmála og leggja hann fullskapaðan fyrir þingflokk sinn til samþykktar. Samhliða gerist það að hann útdeilir eftirsóttum ábyrgðarstöðum sem gleðja þá sem fá að njóta þeirra. Með því verður stuðningmur við niðurstöðu formannsins tryggður. Þetta er alþekkt í stjórnmálum og hefur yfirleitt virkað vel.
Enginn utan við formennina sjálfa veit hvernig fyrirhuguð verkaskipting flokkanna lítur út. Þó hafa lærðar kenningar komið fram varaðndi embætti og fólk til að gegna þeim.
Fullvíst þykir að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra og taki með sér 4 ráðherra til viðbótar, tvo karla og tvær konur. Þá er gert ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fái forseta þingsins í sinn hlut. Veðjað er á að Kristján Þór Júlíusson verði þingforseti. Hann er kominn með nær 8 ára þingreynslu og verður sextugur á næsta ári. Það þykir virðulegur aldur fyrir þingmann til að gegna embætti forseta Alþingis. Guðlaugur Þór Þórðarson gæti orðið utanríkisráðherra, Haraldur Benediktsson umhverfisráðherra og svo þarf að finna tvær konur til að gegna ráðherraembættum fyrir flokkinn. Þá vandast málið. Þó þykir einna líklegast að Unni Brá Konráðsdóttur bjóðist að verða innanríkisráðherra en hún hefur mesta þingreynslu þeirra kvenna sem náðu kjöri til Alþingis á vegum Sjálfstæðisflokksins. Hinar eru flestar alls óreyndar til að gegna ráðherraembættum að svo stöddu. Ekki spillir fyrir Unni að hún er lögfræðingur að mennt sem er mjög æskilegur bakgrunnur fyrir ráðherra lögreglu-dóms-og innflytjendamála.
Talið er að Bjarni Benediktsson sæki konu út fyrir þingflokkinn til að gegna ráðherraembætti. Fordæmi eru fyrir því. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur verið nefnd, enda með mikla reynslu af þingstörfum og almennum stjórnunarstörfum. Nefnt hefur verið að hún tæki sæti í ríkisstjórn þar til Ólöf Nordal getur komið til starfa að nýju eftir veikindi og dvöl á sjúkrahúsi. Fleiri konur hafa verið nefndar í þessu sambandi. Þykja sumar tillögurnar jaðra við grín og aðrar markast af kaldhæðni.
Flestir flokkar hafa verið þeirrar skoðunar að ekki verði hjá því komist að setja nú á fót sérstakt ráðuneyti ferðamála eftir að ferðaþjónusta er orðin stærsta atvinnugrein þjóðarinnar sem aflar gjaldeyris á við bæði sjávarútveg og stóriðju. Talað er um að stofna samgöngu-og ferðamálaráðuneyti og taka þá samgöngumál frá innanríkisráðuneyti og ferðaþjónustuna frá iðnaðarráðuneyti. Með því yrðu ráðherrar ellefu talsins.
Fái Sjálfstæðisflokkurinn 5 ráðherra og forseta Alþingis, ætti Viðreisn að fá fjóra ráðherra og BF tvo. Viðreisn hlýtur að sækjast stíft eftir fjármálaráðuneytinu og enginn þyrfti að vera hissa á því að BF krefðist sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytisins eftir vaska framgöngu í þinginu þegar búvörulögin voru samþykkt gegn harðri andstöðu BF. Björt Ólafsdóttir gæti orðið öflugur ráðherra þessa málaflokks og Óttar Proppé er fæddur í embætti menntamálaráðherra. Hann gæti lyft því ráðuneyti á hærra plan eftir nær átta tíðindalítil ár.
Með Benedikt gætu komið frá Viðreisn til setu í ríkisstjórn þau Þorgerður Katrín, Þorsteinn Víglundsson og Hanna Katrín Friðriksson.
Náttfara finnst svona vel skipuð ríkisstjórn gæti orðið líkleg til góðra verka.