Bjarni kominn með flokkinn niður í 19% og getur ekki hætt strax

Áform um brottför Bjarna Benediktssonar úr embætti formanns Sjálfstæðisflokksins eru að riðlast vegna lélegrar útkomu í skoðanakönnunum. Nú er flokkurinn kominn niður í 19% fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR. Sjálfstæðisflokkurinn er að skreppa saman í höndum Bjarna Benediktssonar og hefur aldrei mælst með minna fylgi í könnunum MMR en nú. Ljóst er að hatrammar deilur innan flokksins um þriðja orkupakkann og sitthvað fleira gerir það að verkum að ýmsir flokkar hrifsa fylgi frá sjálfstæðimönnum. Þannig er Miðflokkur kominn í 14.4% fylgi þrátt fyrir Klausturmálið. Óánægðir sjálfstæðismenn lengst til hægri velja nú að styðja Miðflokkinn sem stendur fyrir þjóðernispoppúlisma og skýra einangrunarstefnu. Frjálslyndari hluti Sjálfstæðisflokksins hefur þegar yfirgefið hann og styður nú Viðreisn og reyndar fleiri flokka. Ekki er lengra síðan er 2007 að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 37% fylgi í Alþingiskosningum í formannstíð Geirs Haarde. Frá því Bjarni Benediktsson tók við formennsku vorið 2009 hefur fylgið hrunið úr 37% niður í 19% ef mið er tekið af þesari nýjustu könnun MMR.

Vangaveltur hafa verið um fyrirhugaða brottför Bjarna úr stjórnmálum. Hann hefur undirbúið það lengi. Liður í því er að kynna Þórdísi Kolbrúnu varaformann og ráðherra sem best til að styrkja stöðu hennar komi til kosninga á landsfundi flokksins. Liður í því var risaviðtal við hana í Fréttablaðinu um síðustu helgi. Ekki var unnt að ráða annað í það viðtal en þar væri á ferðinni óbein yfirlýsing hennar um að hún væri tilbúin að taka við flokknum þegar kallið kæmi – hvort sem það kæmi fyrr eða seinna. Hitt er svo annað mál að margir telja að tími Þórdisar sé alls ekki kominn og að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra muni bjóða sig fram í embætti formanns og fara með sigur af hólmi, óháð því hverjir aðrir yrðu í framboði þegar Bjarni stígur niður. Umræða um þetta hefur verið fyrirferðarmikil innan flokksins og í fjölmiðlum.

Nú bregður svo við að Bjarni lýsir því yfir í fjölmiðlum að hann sé ekki á förum. Hann hefur einnig látið handlangara sína birta skrif um að allt tal um fyrirhugaða brottför hans sé ekki annað en slúður og kjaftasögur. Hann sagði svo sjálfur í viðtaliu við Morgunblaðið að hann liti á það sem hrós um sig að andstæðingar hans virtust vilja koma honum burt úr stjórnmálum. Þessi yfirlýsing er grátbrosleg í ljósi þess að nú hefur Bjarni leitt flokkinn niður í 19% fylgi eins og nýustu mælingar sýna. Ætla má að pólitískir andstæðingar Bjarna vilji halda sem lengst í hann miðað við þann marktæka „árangur“ sem nú blasir við!

Ætla má að Bjarni Benediktsson vilji ekki hætta sem formaður flokksins nema honum takist að auka fylgið verulega. Það yrðu ekki skemmtileg eftirmæli sem hann fengi ef niðurstaðan yrði sú að hann væri formaðurinn sem tók við flokknum sem 35-40% flokki og skilaði honum af sér helmingi minni.