Bjarni ben verður að víkja guðmundi árnasyni frá

Um fátt er nú meira talað en þau átök sem orðið hafa milli þingmanna og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, Guðmundar Árnasonar. Þykir framkoma Guðmundar gagnvart Haraldi Benediktssyni alþingismanni sýna í hnotskurn valdhroka embættismanna sem telja sig greinilega æðri kjörnum fulltrúum þjóðarinnar sem eiga sæti á Alþingi.

 
Haraldur er einn af þeim sem studdu skýrslu formanns og varaformanns fjárlaganefndar þingsins um ráðstöfun á föllnu bönkunum í valdatíð Steingríms J. Sigfússonar. Í því verki öllu var ráðuneytisstjórinn einn helsti handlangarinn hjá Steingrími J. Í skýrslunni koma fram ábendingar um það og ávirðingar á Guðmund. Hann tók þeim vitanlega ekki vel enda nánast verið að væna hann og fleiri embættismenn um landráð. Alla vega stórkostlega handvömm.
 
Margir hafa furðað sig á því að Bjarni Benediktsson hafi sætt sig við Guðmund Árnason sem ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis eftir að hann tók við því vorið 2013. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að gera því skóna að Bjarni Benediktsson og hans fólk hafi komið við sögu í einhverjum dularfullum málum sem fram fóru á vettvangi fjármálaráðuneytisins í tíð Steingríms J. Ekkert verður samt fullyrt um það hér en ýmsum hefur þótt það geðleysi hjá Bjarna að skipta manninum ekki út fyrir einhvern sem hefði alveg hreinan skjöld eftir valdatíð Steingríms J. á þessum vettvangi.
 
En eftir að skýrslan er komin fram og ekki síst eftir hótanir Guðmundar Árnasonar gagnvart Haraldi Benediktssyni – sem fram komu í símtali á föstudagskvöldi – hlýtur Bjarni Benediktsson að víkja honum úr embætti. Alla vega tímabundið meðan ávirðingar í hans garð eru rannsakaðar.
 
Geri Bjarni það ekki, hljóta grunsemdir að aukast um það að Guðmundur og Steingrímur hafi eitthvað á Bjarna Benediktsson sem þolir ekki dagsljósið svona rétt fyrir kosningar.