Bjarni Benediktsson reyndi með ýmsum hætti að beina umræðunni út og suður á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Skiljanlega vill Bjarni sem minnst tala um fallandi fylgi Sjálfstæðisflokksins og allrar ríkisstjórnarinnar í öllum skoðanakönnunum allra skoðanakannanafyrirtækja í bráðum heilt ár. Ljóst er að fylgishrunið er engin tilviljun og ekkert skammtímamál sem mun lagast af sjálfu sér.
Í síðustu könnun var fylgi ríkisstjórnarinnar komið niður í 33 prósent og vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, því kolfallin. Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að mælast neðan við 20 prósent sem var fáheyrt áður, jafnvel mætti segja það fordæmalaust. Minnst hefur fylgi flokksins mælst 16,1 prósent.
Framsókn og Vinstri græn hafa misst helming fylgisins samkvæmt þessum könnunum og Vinstri græn eru nálægt því að fara niður í svo lítið fylgi að flokkurinn félli út af Alþingi ef það yrðu úrslit kosninga. Á sama tíma bætir Samfylkingin stöðugt við sig og mælist nú langstærsti flokkur landsins með 28 prósenta fylgi.
Bjarni vill sem minnst ræða um þessa fylgisþróun við trúnaðarmenn flokksins og heldur ekki klofninginn innan ríkisstjórnarinnar sem fáum dylst að er djúpstæður. Andrúmsloftið á stjórnarheimilinu er baneitrað, ekki síst vegna aðgerða og framkomu Svandísar Svavarsdóttur, ráðherra Vinstri grænna, sem virðist gera það sem henni sýnist og hikar ekki við að ögra samstarfsfólki sínu innan ríkisstjórnarinnar. Bjarni viðurkennir þó að ágreiningurinn innan stjórnarinnar sé ekki til að hjálpa en vill þó ekki gefast upp að svo stöddu. Meginástæður þess að reynt verður að lappa upp á dauðvona stjórnarsamstarf er óttinn við uppgang Samfylkingarinnar og svo löngun einstakra ráðherra til að hanga áfram í ráðherrastólunum mjúku.
Formaður Sjálfstæðisflokksins reyndi að undirbúa flokksráðsfundinn með því að halda því fram að ríkisstjórnin bæri enga ábyrgð á þróun verðbólgu í landinu og því vaxtaokri sem stýrt er af Seðlabanka Íslands, sem er vitanlega einungis ein stofnun innan ríkiskerfisins. Aumt var það hjá fjármálaráðherra að reyna að víkja sér og ríkisstjórninni undan ábyrgð með þeim hætti. Þá kynnti hann sparnaðaraðgerðir sem eru afar smáar í sniðum miðað við umfang fjárlaga ríkisins. Sýnir þetta glögglega að forystumenn ríkisstjórnarinnar eru ráðþrota og búnir að gefast upp að því er virðist.
Loks má nefna sem dæmi um veikan málflutning formanns Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundinum að hann eyddi heilmiklu púðri í að reyna að gera lítið úr stjórn og rekstri Reykjavíkurborgar en Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin í borginni árið 1994 og hefur varla komið þar að meirihlutasamstarfi síðan, nema að hluta á kjörtímabilinu 2006 til 2010 en þá margféll borgarstjórnarmeirihlutinn og fjórir borgarstjórar ríktu á því kjörtímabili, þar á meðal hinn umdeildi Ólafur F. Magnússon.
Hví treysta Reykvíkingar ekki Sjálfstæðisflokknum?
Í 29 ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið nánast úti í kuldanum í stjórn borgarinnar og svíður sífellt meira undan því. Það leyndi sér ekki í vandræðalegum árásum Bjarna Benediktssonar á meirihluta borgarstjórnar. Árásir Bjarna beindust meðal annars að samstarfsflokki hans í ríkisstjórninni, Framsókn, sem vann stóran sigur í síðustu borgarstjórnarkosningum þegar Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tveimur fulltrúum, Um næstu áramót verður oddviti Framsóknar, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri. Bjarni var því að ráðast á beint á samstarfsflokk sinn í ríkisstjórninni með aðdróttunum sínum. Framsókn fær brátt borgarstjóra í Reykjavík úr sínum röðum. er það meira en Sjálfstæðisflokkurinn getur státað af.
Spyrja má hvers vegna kjósendur í Reykjavík treysta Sjálfstæðisflokknum ekki fyrir völdum í borginni úr því að ráðandi flokkar eru svona slæmir, ef marka má grátstafi Bjarna Benediktssonar. Eru kjósendur í borginni svona galnir? Eða er mögulegt að eitthvað sé einfaldlega ekki nógu heillandi við Sjálfstæðisflokkinn? Getur það verið?
Ekki svo að skilja að flokkurinn hafi ekki reynt margvísleg leiðtogaefni í síðustu nokkrum kosningum. Rifjum það upp: Í kosningunum vorið 2010 leiddi Hanna Birna Kristjánsdóttir listann. Flokkurinn náði þá ekki völdum og var raunar fjarri því. Árið 2014 sótti Sjálfstæðisflokkurinn borgarstjóraefni alla leið til Ísafjarðar. Halldór Halldórsson leiddi listann en það dugaði ekki til. Vorið 2018 var fyrrverandi oddviti flokksins á Selfossi fenginn til að reyna. Eyþór Arnalds leiddi listann og enn náði flokkurinn ekki völdum. Vorið 2022 gekk mikið á hjá Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu við að rakka borgarstjórann og meirihlutann niður. Hildur Björnsdóttir, ættuð frá Akureyri, leiddi listann án þess að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda. Vinstri grænir duttu út úr meirihlutanum en Framsóknarflokkurinn kom sterkur inn.
Hvert skyldi flokkurinn sækja borgarstjóraefni sitt næst? Margt hefur þegar verið reynt. Hvernig væri að prófa einhvern af föllnu og týndu þingmönnum flokksins? Af nógu er að taka. Nokkrir eru á lausu – og skoðanakannanir benda til þess að fjölga kunni í þeim hópi.
- Ólafur Arnarson