Nú er komið á daginn að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, braut jafnréttislög eins og Jóhanna Sigurðardóttir gerði á sínum tíma.
Þegar Jóhanna varð uppvís að lögbroti sínu, þá gagnrýndi Bjarni hana harkalega í þinginu og krafðist afsagnar hennar.
Nú hefur Bjarni fallið í sama pyttinn og Jóhanna gerði á sínum tíma sem leiddi til þess að þingmaðurinn Bjarni Benediktsson krafðist afsagnar hennar.
Þá vaknar eftirfarandi spurning: Ætlar Bjarni Benediktsson að vera samkvæmur sjálfum sér og gera það sem hann krafðist af Jóhönnu eftir lögbrot hennar, þ. e. að segja af sér?
Fleiri fyrrverandi ráðherrar hafa brotið lög. Það á við um Ögmund Jónasson og ekki síður Svandísi Svavarsdóttur sem var dæmd bæði í undirrétti og Hæstarétti fyrir valdníðslu í embætti umhverfisráðherra.
Þegar krafist var afsagnar Svandísar vegna lögbrota þá svaraði hún bara með útúrsnúningum og skætingi að hætti \"kjaftforu sjoppustelpunnar\". Svandís sagði ekki af sér frekar en Jóhanna - þó full ástæða hafi verið til í báðum tilvikum.
Mun Bjarni Benediktsson segja af sér og vera þannig samkvæmur sjálfum sér eða mun hann bregðast við með oflæti og valdhroka í anda Jóhönnu og Svandísar?
Fari hann að dæmi þeirra, þá leggst lítið fyrir kappann.
- rtá.