Samkvæmt heimildarmönnum innan Sjálfstæðisflokksins bendir margt til þess að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, sé að skipuleggja brottför sína úr stjórnmálum á næsta ári. Til þess liggja margar ástæður. Hermt er að Bjarni sé einfaldlega orðinn leiður á pólitísku þvargi. Hundleiður. „Það vantar alla gleði“, sagði sjálfstæðismaður sem þekkir vel til og var áður hluti af svonefndri „Garðabæjarklíku“ sem staðið hefur þétt við bakið á formanninum á sama tíma og æ fleiri ýmisst forða sér úr Sjálfstæðisflokknum eða færa sig í var innan flokksins. Ljóst er að enginn getur fellt Bjarna í kosningum á landsfundi. Frekar er verið að tala um að hann ákveði að hætta þegar hann telur að rétti tíminn sé til þess á næsta ári. Það gæti þó ekki orðið fyrr en búið er að ná helstu kjarasamningum á vinnumarkaði en búist er við miklum átökum næstu mánuði.
Bjarni Benediktsson tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum vorið 2009 af Geir Haarde. Hann hefur síðan leitt flokkinn í fernum Alþingiskosningum. Fylgi flokksins í þessum kosningum hefur alltaf verið lítið; það versta, næstversta og hið fjórða lakasta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hlotið í sögunni. Í Alþingiskosningunum fyrir einu ári fékk flokkurinn einungis 25.4% fylgi og 16 þingmenn kjörna, tapaði 5 þingmönnum frá kosningunum ári áður. Skoðanakannanir eru nú að mæla fylgi flokksins á bilinu 19.8% til 25% þannig að ekkert bendir til þess að betri tíð sé framundan. Næsta vor hefur Bjarni leitt flokkinn í 10 ár og er það þriðji lengsti formannsferillinn í flokknum. Einungis Ólafur Thors og Davíð Oddsson sátu lengur en það á formannsstóli. Bandamenn Bjarna segja að hann hafi fyllilega staðið sína vakt við mjög erfiðar aðstæður á vondum tímum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Allt frá hruni hefur Bjarni Benediktsson verið í vörn vegna vægast sagt umdeildra fjármálaumsvifa sinna og fjölskyldu sinnar. Fyrir liggur að fyrirtæki sem Bjarni ýmisst átti í, veitti forstöðu sem stjórnarformaður eða var stjórnarmaður í töpuðu 130 milljörðum króna í hruninu á þess tíma verðlagi. Það jafngildir 250 milljörðum á núverandi verðlagi sem er um 30% af öllum fjárlögum ríkisins árið 2018! Bjarna hefur gengið erfiðlega að útskýra þessar hrakfarir og víst er að mjög mörgum þykir óviðeigandi að maður með slíkan feril gegni æðstu embættum landsins eins og að vera fjármálaráðherra eða forsætisráðherra. Stundin hefur afhjúpað margvísleg vafasöm fjármálaumsvif hans og fjölskyldunnar og gefið í skin innherjasvik og fleiri afbrot án þess að fyrir það hafi verið ákært eða sannanir komið fram opinberlega. Fyrir kosningarnar í fyrra var lagt ólögmætt lögbann á fréttaflutning Stundarinnar sem var svo aflétt nýlega. Eftir það birti Stundin enn meiri upplýsingar sem lekið hafði verið til blaðsins frá þrotabúi Glitnis. Þó svo sumir fjölmiðlar, eins og Morgunblaðið, Útvarp Saga, RÚV og Viðskiptablaðið, hafi valið að beita algerri þöggun gagnvart þessum uppljóstrunum þá er fullyrt að þessi mál öll trufli Bjarna og hans nánustu mikið.
Bjarni mun vera áhugalaus um störf þingsins og er sagður mæta illa á þingflokksfundi, jafnvel einungis á þriðja hvern fund, og eins er hann sagður uppstökkur og úr jafnvægi ef einhver leyfir sér að gagnrýna eða vera á öðru máli en hann. Það er áleitin spurning hvers vegna hann ætti að fórna sér áfram í þetta erfiða hlutverk ef hann nýtur þess ekki lengur. Fjölskylda hans á ennþá miklar eignir sem þarf að halda utan um og hann gæti hæglega farið að sinna því hlutverki af fulltum krafti eins og hann gerði áður en hann tók við embættum ráðherra.
En hver á þá að taka við flokknum? Þá vandast málið vegna þess að Sjálfstæðisflokknurinn þjáist af alvarlegum skorti á frambærilegum leiðtogum. Af sem áður var. Í núverandi þingflokki er fátt um fína drætti. Margir hafa talað um að fá utanaðkomandi mann til að taka við formennsku af Bjarna. Nýlega fréttist af fundarhöldum manna sem réðu ráðum sínum um mögulega formenn utan þingflokks. Laugardaginn 3. nóvember sl. komu nokkrir menn saman í Valhöll til að ræða möguleikana ef Bjarni tæki ákvörðun um að hætta á næsta ári. Enginn talaði um að reyna að fella hann á landsfundi. Nefnd voru nokkur nöfn mögulegra formannsefna. Ari Edwald var nefndur, Björn Zoega læknir og fyrrverandi forstjóri Landsspítalnas, Ásdís Halla Bragadóttir og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA.
En umræða af þessu tagi er óþörf því þetta er ekkert flókið. Ef Bjarni stígur til hliðar mun enginn geta komið í veg fyrir að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verði kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er einfaldlega langsterkasti stjórnmálamaðurinn í flokknum að Bjarna frátöldum. Guðlaugur hefur reynsluna, baklandið, kosningamaskínuna og viljann.
Rtá.