Bjarni ben að fara á taugum

Það getur verið erfitt og taugatrekkjandi að vera í forsvari fyrir hningnadi stjórnmálaflokk og umdeilda ríkisstjórn í aðdraganda kosninga. Þetta sáum við á hátterni Bjarna Benediktssonar í vikunni þegar hann réðist að íslenskum fjölmiðlum með fúkyrðum og skætingi sem sæma honum ekki.
 
Bjarni skrifaði færslu á Facebook seint um kvöld og hélt því fram að íslenskir fjölmiðlar hefðu hvorki stefnu né tilgang. Það eru stór orð. Ætla má að ýmsir fjölmiðlar kunni ekki að meta svona einkunnargjöf frá formanni Sjálfstæðisflokksins. Þannig má benda á að Morgunblaðið, sem yfirleitt hefur stutt Sjálfstæðisflokkinn af fullu afli, hefur tvímælalaust þá stefnu og þann tilgang að vinna að sérhagsmunum eigenda sinna í sjávarútvegi og landbúnaði. Það kemur fram í skrifum blaðsins daglega þar sem gjafakvótakerfið og landbúnaðarsukkið er varið með kjafti og klóm. Þá verður að ætla að hið ríkisrekna RÚV hafi stefnu og tilgang. Ef svo er ekki, þá er það einungis stjórnmálamönnum að kenna en þeir velja stjórn RÚV á Alþingi og hafa alla þræði í hendi sér varðandi þessa stofnun.
 
Margir fjölmiðlar hafa brugðist ókvæða við þessum orðum Bjarna og svarað honum fullum hálsi með rökum og upplýsingum. Einn þeirra snéri skætingi ráðherrans upp á vinnustað hans, Alþingi: “Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna.”
 
Það er ekkert skrítið að fjölmiðlamenn grípi spjót Bjarna Benediktssonar á lofti og sendi það rakleitt til baka með þessum hætti. Miðað við það álit sem þjóðin hefur á Alþingi, er alveg hægt að snúa gagnrýninni upp á það og starfsumhverfi ráðherrans sem dæmdi fjölmiðla með þessum hætti. Hann henti steinum úr glerhúsi.
 
Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og stuðningsmenn þeirra hafa verið sérlega viðkvæmir fyrir umfjöllun fjölmiðla um þá. Þeir virðast telja að fjölmiðlar eigi einungis að þjóna hagsmunum stjórnvalda og vilja helst ritskoða það sem frá þeim kemur. Þetta taugaveiklunarkennda útspil Bjarna er viðbót við það sem áður hefur komið fram á kjörtímabilinu.
 
Fram til þessa hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verið viðkvæmastur allra hvað þetta varðar. Hann talaði um það senmma á kjörtímabilinu, meðan hann var ennþá ráðherra, að hann hafi orðið fyrir “loftárásum” fjölmiðla. Þá talaði hann um að uppljóstranir um Tortólaviðskipti hans og eiginkonunnar hafi verið “samsæri” íslenskra og alþjóðlegar fjölmiðla gegn sér. Einkum var þá átt við RÚV. Þá kveinkuðu stuðningsmenn Hönnu Birnu sér undan umfjöllunum fjölmiðla um lekamál hennar. Sömu sögu er að segja af Orka Energy máli Illuga Gunnarssonar sem vændur var um óeðlileg hagsmunatengsl við aðila sem hann beitti sér fyrir á alþjóðlegum vettvangi í krafti ráðherradóms. Helst var að skilja að íslenskir fjölmiðlar hefðu átt sök á öllum misgjörðum þeirra, fjáhagslegum og pólitískum.
 
Bjarni Benediktsson hefur að mestu verið laus við að falla í þessa gryfju fram til þessa. En nú fór hann heldur betur út af sporinu. Skýringin á því hlýtur að vera sú að vanlíðan hans vex með hverri vikunni sem líður út af komandi kosningum og veikri stöðu Sjálfstæðisflokksins.
 
Það er auðvitað allt íslenskum fjölmiðlum að kenna og öllu því vonda fólki sem þar starfar. Ekki satt?