Sjálfstæðismönnum í Reykjavík hrýs hugur við því að leggja í borgarstjórnarkosningar í vor undir forystu Eyþórs Arnalds eða Hildar Björnsdóttur, sitjandi borgarfulltrúa sem virðast höfða lítt til kjósenda. Framámenn í flokknum og fleiri leita nú logandi ljósi að einhverjum sem þeir telja að hafi burði til að binda enda eyðimerkurgöngu flokksins í sínu fyrrum höfuðvígi.
Ýmis nöfn hafa verið nefnd. Einhverjir horfa til Elliða Vignissonar, sveitarstjóra í Ölfusi og fyrrum bæjarstjóra í Vestmannaeyjum sem bjargvættar í borginni. Rökin fyrir því eru að hann sé röskur og drífandi, fastur fyrir og ákveðinn. Þá er talið að Elliði höfði mjög til íhaldsamra kjósenda.
Ekki eru allir á því að fá Elliða í framboð í borginni. Sjóaðir spekúlantar telja að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi allra síst á því að halda að fá á sig meiri hægri stimpil en orðið er; atkvæði íhaldsamra kjósenda skiptist hvort sem er á milli hans og Miðflokksins. Miklu meira máli skipti fyrir flokkinn að höfða til yngri kjósenda og kvenna en það hafi gengið illa hingað til. Hvorki Eyþór né Hildur höfði til kjósenda sem ekki séu þegar traustir sjálfstæðismenn. Nafn Sigríðar Andersen hefur verið nefnt og upp á síðkastið hefur nafn Ásdísar Höllu Bragadóttur heyrst. Bæði Sigríður og Ásdís Halla hafa það sér til ágætist að njóta trausts flokkseigendafélagsins. Ásdís Halla hefur reynslu sem bæjarstjóri í Garðabæ, situr í stjórn Árvakurs og hefur verið falið að búa til ráðuneyti utan um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Á Akureyri hefur Ásthildur Sturludóttir ráðið ríkjum frá 2018. Áður var hún bæjarstjóri í Vesturbyggð frá 2010. Hún þykir vera farsæl í starfi þótt margir kími enn yfir þeirri seinheppni hennar að fullyrða að lítið væri um Covid smit á Akureyri vegna þess að Akureyringar væru hlýðnir og fylgdu reglum. Þetta sagði hún í október 2020, nokkrum dögum áður en fregnir bárust af því að Covid breiddist úr á Akureyri og víðar fyrir norðan eins og eldur í sinu meðal annars vegna þess að fólk sem ætti að vera í sóttkví væri á ferli innan um annað fólk.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík setja þetta axarskaft hennar ekki fyrir sig og telja hana mun betri frambjóðanda en bæði Eyþór og Hildi. Ásthildur er vel ættuð í Sjálfstæðisflokknum, dóttir Sturlu Böðvarssonar, fyrrum ráðherra og forseta Alþingis. Spurningin er hvort hún er til í að yfirgefa höfuðstað Norðurlands og bæjarstjórastólinn þar til að leiða lánlaus flokksystkini sín í sundruðum borgarstjórnarflokki, þar sem hver „sáttarhöndin“ er upp á móti annarri, í baráttu við vinsælan borgarstjóra og samhentan borgarstjórnarmeirihluta?
Sjálfstæðismenn hafa áður sótt sveitastjórnarfólk út á land til að leiða flokkinn í borginni. Halldór Halldórsson var sóttur til Ísafjarðar og leiddi listann 2014. Fjórum árum síðar var það Eyþór Arnalds sem var sóttur til Selfoss. Ekki hefur flokkurinn riðið feitum hesti frá því. Árangur Halldórs var sá lakasti í sögunni og annar versti árangurinn í borgarstjórnarkosningum kom svo fyrir fjórum árum undir forystu Eyþórs.
- Ólafur Arnarson