Bjargar árni páll samfylkingunni?

 Núverandi þinglið Samfylkingarinnar er ekki líklegt til stórræða í komandi kosningum.
 
Skemmst er að minnast þeirrar útreiðar sem flokkurinn hlaut í Alþingiskosningunum haustið 2016. Þá féllu reyndir þingmenn flokksins og einungis þrír lítt spennandi fulltrúar náðu kjöri; þau Oddný Harðardóttir, Guðjón Brjánsson og Logi Einarsson. Oddný leiddi flokkinn í kosningunum sem formaður og sagði svo af sér strax eftir kosningar. Logi var þá varaformaður og fékk laskaðan flokkinn í fangið og tók við formennsku.
Lítið hefur farið fyrir þeim þremur í störfum þingsins. Samfylkingin er frekar týnd sem stendur.
 
Gamalreyndir þingmenn Samfylkingar náðu ekki kjöri í síðustu kosningum. Má þar nefna Össur Skarphéðinsson, Árna Pál Árnason, Ólínu Þorvarðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Helga Hjörvar. Það munar um minna.
 
Ekki er vitað hvort þessir fyrrverandi þingmenn muni bjóða sig fram að þessu sinni. Talið er að Össur hafi ekki áhuga á því. Þá hefur Sigríður Ingibjörg tekið til starfa hjá ASÍ og mun væntanlega ekki vilja fórna því starfi.
 
Samfylkinguna vantar reyndan og kraftmikinn stjórnmálamann til að setja svip á komandi kosningabaráttu. Annars er viðbúið að flokkurinn týnist gjörsamlega því þessir þrír núverandi þingmenn munu ekki ná mikilli viðspyrnu. Því miður fyrir flokkinn.
 
Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, er sá maður sem getur komið með reynslu, þekkingu og kraft inn í kosningabaráttu flokksins.
 
Ef þessi fyrrverandi ráðherra býður sig fram að þessu sinni þá ætti Samfylkingin von um að komast á kortið.
 
Árni Páll getur nú orðið bjargvættur Samfylkingarinnar.
 
Rtá.