Bitlaus samviska þjóðar

DV var lengi vel samviska þjóðarinnar og refsivöndur sem margir kveinkuðu sér undan.

Deilt var um sanngirni og málsmeðferð en hinu verður ekki mótmælt að í ritstjóratíð Reynis Traustasonar var flett ofan af mörgum ljótum málum sem ella hefðu legið í þagnargildi. Án kjarkmikillar og oft óvæginar blaðamennsku hefði lekamál Hönnu Birnu aldrei komist upp og líkast til væri hún ennþá sjálfumglaður og hrokafullur ráðherra ef ekki hefði komið til umfjöllunar og eftirfylgni DV. Sama má segja um mörg önnur mál og nægir að nefna svindlið í Landssímanum, sem kennt var við “Litla Landsímamanninn” og Árna Johnsen/BYKO málið sem Mogginn reyndi að þaga í hel. DV þótti sýna mörgum stjórnmálamönnum, einkum úr Framsókn og Sjálfstæðisflokki, aðgangshörku og jafnvel dónaskap.

En svo varð hallarbylting. Skipt var um eigendur og ritstjórn. Reynir og félagar hurfu á braut. Alls konar sögusagnir ganga um eignarhaldið og dramatískir atburðir hafa orðið af því tilefni. Náttfara er alveg sama um eignarhldið á DV, hvort það er raunverulega í eigu einkaaðila eða Framsóknarflokksins. Náttfari gerir ekkert með það en hann hefur áhuga á að greina hvernig blaðið er orðið og hvernig það hefur breyst.

Víst er að DV raskar alls ekki ró neinna Framsóknarmanna og reyndar engra sem styðja ríkisstjórnina að málum. Það örlar ekki á gagnrýni á hendur valdstjórninni eftir eigendaskiptin síðla árs 2014. Nú fjallar blaðið hins vegar í meginatriðum um ekki neitt. Það litla sem flýtur með af efni sem tengist stjórnmálum eða þjóðmálum yfir höfuð er mjálm til hjálpar ríkisstjórninni og smáskítkast í stjórnarandstöðuna, einkum Samfylkinguna. Og einu sinni tókst þeim að skúbba frétt um fyrirhugaða samninga við slitabú föllnu bankanna. Það var reyndar frétt sem flestum þingmönnum stjórnarflokkanna kom í opna skjöldu. Lekinn kom úr innsta hring Framsóknar – en hefur auðvitað ekkert með meint eignarhald að gera.

Lítum á efni DV sem kom út 16. júní.  Þar er fjallað um hve margir bílaleigubílar eru á Íslandi. Talað um geitungabúskap Íslendinga. Bent á verðbólgu í einkunum grunnskólabarna. Skýrt frá því að Illugi Gunnarsson, talsmaður Orka Energy, hafi af einhverjum ástæðum ekki haft milligöngu um fundi forseta Íslands og Orka Energy. Þá er gríðarlega áhugaverð umfjöllun um Selasetur Íslands, eitthvað sem allir hafa beðið eftir. Þá er fjallað um flóðhesta á flótta. Og svo kemur sjálf leiðaraopnan. Æsast þá leikar. Kolla ritstjóri biður fólk í leiðara að vera í góðu skapi 17. júní, alls ekki mótmæla og ekki trufla ræðu Sigmundar Davíðs. Ekki heldur þeir sem misstu samningsrétt sinn með lagasetningu. Í opnunni eru tvær endurprentanir af Eyjunni og svo er Sandkorn, sem áður var mest lesna efnið í blaðinu því þar gat oft að líta smáfréttir sem haft gátu pólitíska þýðingu og verið forvitnilegar. Sandkornin eru þrjú. Það fyrsta eitthvað óskiljanlegt þrugl um að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben hefðu farið á völlinn og séð landsleikinn. Sennilega til að undirstrika hve mikinn áhuga þeir hafi á að vera nærri þjóð sinni á ögurstundum. Bjarni er gamall fótboltamaður en efast má um að Sigmundur Davíð vita hve margir eru í hvoru liði. Þá er enn á ný klórað í Árna Pál og undirstrikað að hann hafi veika stöðu eftir mótframboð á flokksþingi fyrir 3 mánuðum. Aldeilis heit frétt, eða hvað. Og svo er skætingur í RÚV og hornin sett í fréttamat þeirra, rétt eins og er viðlag í flestu því sem útsendarar stjórnarflokkanna kyrja sí og æ.

DV er með öðrum orðum steingelt. Það má velta því fyrir sér hvort það var einmitt tilgangur þeirra sem keyptu blaðið að tryggja að það yrði meinlaust og helst “krúttlegt”, sbr. allir í góðu skapi 17. júní.

Víst er DV ekki lengur samviska þjóðarinnar. Það hlutverk hefur færst yfir á Stundina, öðru fremur, enda sama áhöfn þar um borð og var áður á DV. 

Í þessu samhengi er mikið umhugsunarefni hvernig mál fjölmiðla eru að skipast í landinu. Maður þarf ekki að vera djúpvitur til að sjá að núverandi stjórnarflokkar ætla að tryggja sér sem mest vald yfir fjölmiðlum landsins í tæka tíð fyrir næstu kosningar. Allir sjá hvernig ólmast er gegn RÚV. Þar hlýtur undan að láta fyrr en síðar. Ekki þurfa þeir mikið að hafa fyrir Morgunblaðinu sem er í eigu sægreifa og Kaupfélags Skagfirðinga. Sama gildir um Bændablaðið. Sami rassinn virðist vera undir Pressunni, Eyjunni og DV. Loks má nefna að Viðskiptablaðið er í eigu gamalla Heimdellinga, eins og glöggt má greina.

Stjórnrflokkarnir munu engu ráða um 365 miðla, sem hafa innan sinna vébanda Stöð 2, Bylgjuna, Fréttablaðið og visi.is. Miklu varðar að Stundin.is og Stundin standi í lappir og taki við hlutverkinu SAMVISKA ÞJÓÐARINNAR.