Birna fer í prófkjörið – loksins fulltrúi lista og menningar

Í áratugi hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki teflt fram í trúnaðarstöður neinum sem tengist menningar- og listalífi þjóðarinnar. Nú gæti orðið breyting þar á því að Birna Hafstein gefur kost á sér í prófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Hún er starfandi formaður Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum og hefur gegnt margvíslegum stöðum innan listalífs þjóðarinnar á undanförnum árum.

Birna er menntuð á sviði söngs og leiklistar, bæði hér á landi og erlendis, og hún hefur átt sæti í fjölda stjórna og nefnda á sviði menningar og lista. Hún var meðal annars stjórnarmaður í Tónlistarhúsinu Hörpu. Þá er Birna með bakgrunn úr fleiri áttum en hún er með stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Þegar betur er að gáð þá vekur athygli að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki teflt fram fólki sem tengist menningu og listum í áratugi. Þess vegna er það mikill fengur fyrir framboð flokksins í Reykjavík að Birna Hafstein hafi ákveðið að gefa kost á sér til setu í Borgarstjórn Reykjavíkur. Ekki veitir flokknum af.

Í síðustu viku birti Stöð tvö yfirgripsmikla skoðanakönnun sem sýndi að Sjálfstæðisflokkurinn tapar miklu fylgi í borginni. Síðast fékk hann 31 prósent og átta menn kjörna af 23. Nú mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 21.9 prósenta fylgi og fengi 6 menn kjörna. Tapar tveimur og sjötti maðurinn er reyndar tæpur samkvæmt könnuninni. Þessi staða er skelfileg fyrir flokkinn.

Spyrja má hvað sé til ráða hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Sveinn Andri Sveinsson, fyrrum borgarfulltrúi flokksins, hefur lýst þeirri skoðun sinni að flokkurinn geti ekki náð sér á strik í Reykjavík nema með því að skipta algerlega um fólk og frambjóðendur í borginni. Hann segir ekki duga að Eyþór Arnalds hætti, heldur verði ALLIR núverandi borgarfulltrúar flokksins að víkja eigi árangur að nást. Auk þess verði að breyta um stefnu og láta af þeirri ólundarstefnu og neikvæðni sem einkennt hefur málflutning flokksins í borgarmálum. Óhætt er að taka undir þessa greiningu Sveins Andra.

Birna Hafstein fellur algerlega að þeirri stefnu að tefla fram nýju og frambærilegu fólki. Auk þess yrði hún glæsilegur fulltrúi menningar og lista í stjórnmálum – loksins eftir að nær enginn flokkur hefur gefið fólki úr þeirri átt tækifæri í áratugi.

Þó að Birna hafi ekki verið virk í flokksstarfi hjá Sjálfstæðisflokknum á hún sterkar rætur þar. Móðir hennar, Erna Hauksdóttir, var formaður Hvatar og einn stofnenda og fyrsti framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Afabróðir hennar var Jóhann Hafstein, forsætisráðherra og formaður flokksins. Faðir hennar er Júlíus Hafstein sem var borgarfulltrúi um árabil á miklum uppgangstíma Sjálfstæðisflokksins í borginni. Hann var meðal annars borgarfulltrúi þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann einn sinn stærsta sigur í sögunni, vorið 1990. Þá hlaut flokkurinn 60 prósenta fylgi í borgarstjórnarkosningum. Síðan er liðinn langur tími, mikill niðurlægingartími flokksins. Mörgum finnst tími til kominn að skipta um gír, skipta um vinnubrögð og stefnu, og ekki síst: skipta út fólki og hleypa nýjum leiðtogum að.

- Ólafur Arnarson.