Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Vinnslustöðinni var nýlega í stóru viðtali við Morgunblaðið þar sem hann lýsti fögnuði sínum vegna eigendaskipta á þriðjungshlut í Vinnslustöðinni. Guðmundur í Brimi seldi þennan hlut fyrir 9.4 milljarða til FISK á Sauðárkróki sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.
Mikil átök hafa staðið undanfarin ár um rekstur fyrirtækisins milli Sigurgeirs, sem jafnan er kallaður Binni, og eigenda Brims sem hafa átt 34% hlut í Vinnslustöðinni. Gengið hefur á með gagnkvæmum málaferlum og átökum sem ekki þarf að rekja hér enda öllum kunn sem fylgjast með í atvinnulífinu.
Bræðurnir í Brimi eru fæddir inn í sjávarútveg og gjörþekkja greinina. Binni er hins vegar bankastrákur sem starfaði hjá Íslandsbanka þar til fyrir 19 árum. Átökin um Vinnslustöðina hafa í stuttu máli snúist um það að Brim hefur viljað byggja fyrirtækið upp en Binni hefur lagt höfuðáherslu á arð til hluthafa þannig að hann og aðrir skuldsettir hluthafar gætu greitt eitthvað af lánum sínum vegna kaupa á hlutabréfum í Vinnslustöðinni.
Þau lán eru mikil og þung því Binni átti mjög lítið eigið fé þegar hann byrjaði að kaupa í fyrirtækinu, mest fyrir lánsfé. Vegna mikilla arðgreiðslna hefur uppbygging í fyrirtækinu gengið mun hægar en í sambærilegum fyrirtækjum í sjávarútvegi sem hafa stungið Vinnslustöðina af. Dæmi um það eru Ísfélag Vestmannaeyja og Síldarvinnslan í Neskaupstað.
Málflutningur Binna í viðtalinu við Morgunblaðið er á lægsta plani og engum til sóma. Hann bætir hvergi við álit sitt með því en hann er víða þekktur fyrir frekju og yfirgang.
Margir urðu til að brosa góðlátlega þegar Binni sagði í viðtalinu að nú væri lokið átökum í Vinnslustöðinni þar sem Guðmundur Kristjánsson væri búinn að selja. Í deilum þar ávalt tvo til. Guðmundur er farinn á brott með 9.4 milljarða. Hann brosir nú allan hringinn.
En Binna bíður samstarf við Þórólf Gíslason á Sauðárkróki sem náð hefur frábærum árangri í rekstri. Árangur Þórólfs byggist ekki síst á því að hann ræður för alls staðar þar sem hann kemur nærri.
Nú þarf Binni að hlýða Þórólfi í einu og öllu. Annars verða deilurnar við Guðmund Kristjánsson eins og minni háttar erjur samanborið við það sem þá gæti gerst.
Rtá.