Betra að niðurgreiða getnaðarvarnir en þjóðkirkju

Í þætti Gísla Marteins, Vikunni á Rúv í gærkvöld, var birt könnun Gallup sem sýnir að  55,5% landsmanna eru nú hlynnt því að ríki og kirkja verði aðskilin. Á einu ári hefur stuðningur við að skilið verði milli ríkis og kirkju hækkað um fimm prósentustig sem er mjög mikið. Þá hefur þeim sem eru andvígir aðskilnaði stórfækkað og virðist bein lína milli aldurs og viðhorfs landsmanna. Sumt miðaldra Íslendingar og sumt eldra fólk vill óbreytt ástand. Fáir aðrir. Samkvæmt líkindafræðinni mun þessi íhaldssemi, að halda í þjóðkirkjuna, deyja út á næstu árum. Nema kirkjan gangi í gegnum innri endurskoðun og róttæka hugarfarsbreytingu.

Gísli Marteinn ræddi niðurstöðu Gallup við gesti þáttarins í gærkvöld. Benti Saga Garðarsdóttir leikkona á að nær væri að setja milljarðana sem fara árlega í þjóðkirkjuna til að niðurgreiða getnaðarvarnir en dæla áfram fé í þjóðkirkjuna. Án djóks held ég að hún hafi ekki verið að grínast!

Niðurstaða Gallup sýnir að hrun hefur orðið á trausti almennings gagnvart þjóðkirkjunni. Mörg hneykslismál og álitamál síðari ára skýra það eflaust að hluta. Gunnar Smári Egilsson blaðamaður nefndi í þættinum í gærkvöld að svokallað samviskufrelsi presta til að neita að gefa samkynhneigða saman hefði sennilega farið alveg með það. Stofnun sem vitnar í mann sem var uppi fyrir 2000 árum og boðaði umburðarlyndi og kærleika í hverju orði, hefur harla oft reynst snauð af hvoru tveggja í seinni tíð. Jafnvel æðsti yfirmaður hennar, biskupinn, var ekki alls fyrir löngu ásakaður um hræðilegt og margítrekað ofbeldi. Kirkjan skeit á sig í viðbrögðum þess máls. Er þá ekki minnst á aukna menntun landsmanna, minni stemmningu fyrir boðun og ríkari þátt rökhugsunar í nútímalífi en var.

Á sama tíma erum við með forsætisráðherra í landinu sem virðist mjög í mun að bæta þjóðkirkjunni upp fyrri fjárhagsskerðingar vegna hrunsins frekar en að auka aðhald. Innanríkisráðhera Ólöf Nordal segist líka trúa á Guð og hafa upplifað hluti sem bendi til tilvistar hans. Þar eru eflaust komin pólitísk „rök“ fyrir að hún muni ekki beita sér fyrir aðskilnaði.

Það sverfur víða að trúarbrögðum í heiminum. Það sverfur víða að þeirri hugmynd að réttlætanlegt sé að moka ríkisfé í eina trúarstofnun, þótt margir bendi enn á að gildi og menning Íslendinga sé órofa tengd þjóðkirkjunni og að á það beri að líta. En þeim sem trúa á stokka á steina og tengja það við eigin menningu, land og þjóð, finnst líka mörgum sem það sé þeirra einkamál sem ekki komi þjóðkirkju endilega við. Á sama tíma og ótal stéttir berjast í bökkum fjárhagslega er staðreynd samkvæmt launatölum og rannsóknum að kirkjunnar þjónar hafa vel í sig og á. Sumir myndu segja að ekki sé samasemmerki milli þeirra launa og tíðkast hjá mörgum öðrum sambærilegum stéttum.

Til eru margir frábærir prestar sem veita ómetanlega aðstoð við sálgæslu þegar myrkrið leggst yfir fjölskyldur. Margir kjósa líka enn að kalla til prest á mestu gleðistundum líkt og þegar barn hlýtur nafn. En allt lýtur að einu. Þegar spurt er með gildum rökum hvort ekki væri nær að niðurgreiða getnaðarvarnir en að verja fé skattborgaranna til þessa trénaða stjórnsýslugímalds (þótt margir góðir starfsmenn séu innan um), þessa gímalds, sem sennilega hefur ekki þróast í takt við samtímann, blasir krísa þjóðkirkjunnar við.

Svar kirkjunnar hlýtur að felast í aukinni auðmýkt og endurreisn innan frá. Ef enn á að taka gagnrýni Sögu Garðars og fleiri með hroka og fyrirlitningu eða þeim tíðindum sem hér hafa orðið að þeir sem styðja fjárausturinn til kirkjunnar af ríkisfé, séu einkum hinri sömu og predika einkaframtakið, það er fygismenn Sjálfstæðisflokksins eins og könnun Gallup og Gísla Marteins mælir, hlýtur eitthvað undan að láta. Jafnvel í landi súrrealismans þar sem hlutir snúa oft á haus.

Sjálfur er ég meðlimur í þjóðkirkjunni. Í eina skiptið sem ég hef gengið í hjónaband fannst mér ómissandi að fá til þess starfa sóknarprestinn og vin minn hér á Akureyri, til að gefa mig og konuna mína saman. Annar vinur okkar hjóna úr prestastétt, nútímalegur og frjálslyndur maður með umbótaanda í eigin brjósti, skírði yngstu börnin okkar. Ég er því hvorki satanískur að sérstöku upplagi né hyggst ég segja mig úr þjóðkirkjunni í bili. Andúð mín á kirkjunni hefur eigi að síður aukist undanfarin ár og kemur guðstrú ekkert við.

Ég hef fengið mikla hjálp frá prestum þegar dauðinn hefur hrifsað frá mér ástvini. Ég held satt að segja að ég gæti þó fengið eins góða aðstoð frá fólki í öðrum fagstéttum. Ég er orðinn þreyttur á að heyra presta tala um okkur sem gagnrýna þjóðkirkjuna sem skyni skroppna einstaklinga sem hafi það að markmiði að níða úr þessa stofnun. Ef auðmýkt starfsmanna kirkjunnar mun ekki leysa hrokann af hólmi er þessu sjálfhætt. Þannig er það nú...