Best og verst á árinu 2015

Já, hvað fannst okkur best og hvað þótti okkur verst á árinu 2015?

Engir tveir munu svara þeirri spurningu eins. En mér fannst verst að upplifa það enn eitt árið að ríkjandi stjórnvöld væru firrt eigin þjóð og samfélagi.

Sú skoðun mín hefur ekkert með flokkspólitíska stefnu að gera svo það sé sagt strax. Ég hef mestalla tíð mína starfað hjá einkaframtakinu, ég er hægri sinnaður í ákveðnum skilningi en ég er líka til vinstri.

Á árinu 2015 leið mér sorglega dag eftir dag, bæði í vinstri og hægri síðunni minni. Lesandi, heyrandi allt bullið sem valt upp úr þingmönnum þjóðarinnar á árinu, sjá embættisverkin, allt miðar að einu; ef þú ert ekki í klúbbnum máttu éta það sem úti frýs!

Fyrir síðustu áramót klóraði ég mér í kollinum yfir hækkun bókaskatts, menningarfjandsamlegum atlögum ýmsum öðrum.  Stjórnin afnam þá sykurskatt en hækkaði matarskatt. Hvers vegna?

Mér líður svipað núna, skil ekki ákvarðanir, næ ekki áherslunum.

Ég sé ekki betur en að Þróunarsamvinnustofnun hafi verið lögð niður vegna haturs á ESB. Það opinberaðist í þingumræðum nýverið. Nokkrir stjórnarþingmenn frussuðu því út úr sér að það væri ótækt að reka stofnun sem legði til fé í þróunaraðstoð innan ESB!

Stundum spyr maður hvort heimskan og heiftin ráði för stjórnmála þessi misserin.

Að ekki sé talað um þá nauðgun sem framin var gagnvart lýðræðinu með verki Gunnars Braga, ESB-bréfinu.

Það er illa mannað í ríkisstjórninni. Ég gæti nefnt Ólöfu Nordal sem yfirburðamanneskju en nokkrir ráðherrar eru rednecks eins og Björk Guðmunds orðaði það varfærnislega en vakti þó mikla reiði hinna rauðu hálsa, sannleikurinn bítur en hann heyrum við sjaldan hjá stjórnmálamönnum.

Þá er þáttur forseta Íslands ónefndur í þessu skrípaleikriti sem Stóra sviðið býður endalaust upp á. Í hvert skipti sem ÓRG sagði eitthvað, skall á mér firringin. Það sem ÓRG sagði nú síðast um útlendinga og múslima, sundrungartáknið okkar krúttlega herra ÓRG, plís, ekki meir, ekki meir.

Þótt Sigmundur Davíð, alltaf í huganum á eyðibýlinu, hafi vakið upp draug Húsameistara ríkisins og láti fólk ganga með steina frá einum stað til annars og aftur til baka fyrir 500 milljónir.

Það var líka vont á árinu 2015 að sjá launaskrið toppanna í samfélaginu, dýpkandi gjá milli ríkra og snauðra, aukna stéttaskiptingu.

Ef ríka fólkið hér á landi væri hæfileikararíkara, duglegra, greindara en við hin gæti ég vel fyrirgefið þeim forréttindin. En við lifum þá tíma árið 2015 að vænlegra er fyrir foreldra að senda börnin í framsóknarskólann ung en að mennta þau, þ.e.a.s. ef okkur dreymir um að börnin nái að meika það peningalega á þessu skeri. Það er tómt rugl að kenna krökkunum okkar gildi um að hinum hæfustu sé umbunað meira en öðrum. Það gerist aðeins í heillbrigðu samfélagi. Ekki hér. Í andverðleikasamfélagi snýr allt á haus.

Í framsóknarskólanum segir einn kennaranna, þingkona umtöluð, að bætur til öryrkja eigi að vera lægri en lægstu laun af því að vinnandi fólk sé með ýmsan aukakostnað, þurfi að hafa börn á leikskóla og svona! Nenni ekki að skrifa meira um Vigdísi. Jólin fram undan osonna...

Það sem mér fannst best á árinu er þjóðin. Þótt hún kjósi yfir sig afleita stjórnmálaforingja. Kannski vantaði okkur fleiri góða valkosti síðast, gleymum því ekki. Eftir að Vinstri stjórnin var sundruð orðin, lasburða og bensínlaus dreymdi marga um breytingar þótt sannarlega hafi Vinstri stjórnin staðið sig hetjulega í að halda samfélaginu gangandi eftir hrun án þess að hinir brothættustu féllu fyrir björg. En Vinstri stjórnin sveik okkur um stjórnarskrá. Þar með hvarf Samfylkingin af kortinu og tími breytinga rann upp.

Mér finnst þjóðin alla daga fín þótt allt sé í volli og heimsku hvað varðar stjórn landsins.

Mér fannst þjóðin okkar fína sýna sitt rétta andlit þegar hún réðist á ýmis tabú á árinu 2015 og útrýmdi þeim. Mér fannst Free the Nipple átakið t.d. alveg magnað. Það var líka dásamleg jólagjöf sem Ísland gaf sjálfri sér að gangast við ábyrgð eftir Albaníuklúðrið. Takk kærlega Hermann, þú ert maður ársins án vafa.

Mér fannst líka bjart yfir hjá listamönnum, rithöfundum og mörgu öðru andans fólki á árinu 2015, þrátt fyrir pólitískt mótlæti – eða kannski einmitt vegna þess.

Mér fannst veðrið líka heilt yfir ágætt á árinu 2015, það er nefnilega veður víðar en á höfuðborgarsvæðinu þótt það gleymist stundum í fjölmiðlum.

Vitaskuld vona ég líka að við fáum betra pólitískt veður á nýju ár. Hóflega bjartsýnn þó.

En það verður vonandi til einhvers að hlakka þegar kosið verður til forseta á Bessastöðum. Þá verður íslenskt stuð eins og það gerist best og sól alla nóttina.

Gleðileg jól!

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)