Bermúdaskál fyrir 25 árum

Fréttablaðið í dag minnist þess að liðinn er aldarfjórðungur frá því Íslendingar urðu heimsmeistarar í brids. Talað er við Björn Eysteinsson sem var fyrirliði íslensku sigursveitarinnar sem vann keppnina í Japan.

 Af þessu tilefni rifjar blaðið upp eftirminnilega móttökuathöfn á Keflavíkurflugvelli þegar landsliðið kom heim eftir þessa frægðarför seint um kvöld. Sjálfur forsætisráðherra tók á móti sigurvegurunum ásamt utanríkisráðherra en þeir voru þá búnir að vera saman í ríkisstjórn frá byrjun mai – og ennþá óskaplega gaman að lifa.

 Davíð Oddsson lét viðstadda lyfta glösum og skála með orðunum: 

 Segjum ekki bara skál, heldur Bermúdaskál!  

 Þetta þótti Davíð og Jóni Baldvin afar fyndið enda voru þeir að koma beint úr langri og strangri veislu í ráðherrabústaðnum með erlendum gestum. Glöggt mátti greina það á svip þeirra og háttarlagi. Það kom m.a. greinilega fram í fréttum sjónvarpsins.

 Fjölmiðlar hneyksluðust eitthvað á því að forsætisráðherra kæmi opinberlega fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar augljóslega undir áhrifum. RÚV spurði hann út úr varðandi þetta. Davíð kannaðist alls ekki við að hafa verið undir áhrifum áfengis en viðurkenndi að hann hafi verið lasinn og þurft að taka lyf. Þar væri skýringin komin á útliti hans og hegðun við komu sigursveitarinnar til Keflavíkur umrætt kvöld.

 Af þessu tilefni varð til vísa:

 Líf mitt er fjölmiðlaleikur.

Langoftast virðist ég keikur.

En mér brá er ég sá að ég birtist á skjá

svona blindöskuþreifandi – veikur.

 

(höfundur ókunnur).