Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, mælti á Alþingi í gær fyrir breytingu á lyfjalögum.
Breytingin felur í sér að skilyrði laganna, um að undanþágu til sölu á tilteknum lausasölulyfjum í almennum verslunum megi aðeins veita þar sem ekki er starfrækt lyfjabúð eða lyfjaútibú, verði afnumin.
Fréttablaðið greinir frá en í frumvarpinu er lagt til að í öllum almennum verslunum landsins verði heimilt að selja öll þau tilteknu lausasölulyf sem hljóta undanþágu frá Lyfjastofnun. Í dag er í mjög litlum mæli heimilt að selja lausasölulyf utan lyfjaverslana.
„Lyf sem ekki eru ávísunarskyld eru opin öllum til kaupa, því er þá þessi þröngi rammi settur utan um aðgengi fólks að þeim? Auðvitað á það ekki að skipta máli hver selur þessa nauðsynlegu vöru, miklu heldur eigum við að setja í kjölfarið bara eðlilegar kröfur á þann sem selur vöruna, ekki hver það er,“ segir Berglind.
Hún telur að breytingin geti skipt sköpum fyrir almennar verslanir, sérstaklega á landsbyggðinni. Þar að auki séu afgreiðslutímar oft á tíðum misjafnir eftir stærð byggðarlaga, þar af leiðandi myndi breytingin hafa í för með sér betra aðgengi fólks að lausasölulyfjum.
„Með því að víkka út undanþáguheimild til að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum væri með tiltölulega einföldum hætti hægt að koma betur til móts við þarfir neytenda, auka aðgengi, auka samkeppni og lækka verð á tilteknum lausasölulyfjum sem Lyfjastofnun hefur þegar heimilað almennum verslunum að selja,“ segir Berglind.