Það vakti mikla athygli í gær þegar Njáll Trausti Friðbertsson, annar tveggja formanna Hjartans í Vatnsmýrinni, sakaði borgarstjóra um vanvirðingu gagnvart sjúkraflugsaðilum í ummælum sem hann lét falla í frétt Hringbrautar eftir að hafa fylgst með borgarráðsfundi. Njáll taldi að Degi bæri að biðjast afsökunar.
En hvað sagði Dagur? Nákvæm ummæli hans í frétt Hringbrautar í gær komu ekki fram. Skýrðist skortur á uppfærslu af því að rafrænn hlekkur Reykjavíkurborgar sem á að vísa á umræðu fundarins lá niðri.
Hlekkurinn er nú í lagi og geta áhugasamir um framtíð flugvallarins, neyðarbrautarinnar og sjúkraflugið séð fundinn allan, orð fyrir orð. En skoðum fyrst hvað Njáll Trausti sagði í frétt Hringbrautar:
„Ummæli borgarstjóra þar sem hann vegur að flugmönnum í sjúkrafluginu og starfsheiðri þeirra með ósmekklegum hætti komu mér svo sannarlega á óvart,“ sagði Njáll Trausti Friðbertsson og bætti við: \"Dagur B. Eggertsson hlýtur að átta sig á því að hann sem borgarstjóri, embættismaður getur ekki farið fram með þessum hætti eins og hann gerði á borgarstjórnarfundinum í gær. Það mun koma mér verulega á óvart ef borgarstjóri verður ekki búinn að senda hlutaðeigandi afsökunarbeiðni fyrir lok dags. Fyrir mér er þetta dæmi um málefnafátækt og sýnir mjög skýrt að menn eru komnir út í horn.“
Njáll Trausti var að vísa til fundarins þegar meirihluti borgarstjórnar samþykkti á borgarstjórnarfundi að auglýsa að nýju deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar þar sem hin svokallaða neyðarbraut hverfur af skipulagi. Njáll áréttaði þennan skilning sinn og sagði á fb-síðu sinni í gærkvöld: „Borgarstjóri gaf í skyn að það hefði ekki verið þörf á því á nýársnótt að nota neyðartilvikaflugbrautina. Gaf í skyn að þeir sem komu að þessu sjúkraflugi hafi verið með eitthvað leikrit í gangi. Ég hef verið að reyna að komast inn á heimasíðu borgarinnar í dag. Hún virðist liggja niðri í dag. Mig langaði að benda fólki á að skoða hvað fór fram með eigin augum. Í framhaldi af þessu reikna ég með að frekari upplýsingar komi fram hjá borgarstjóra. Hann hlýtur að bara ábyrgð á því sem kemur frá honum og benda á gögn sem styðja við hans mál.“
Hlekkurinn með útsendingu fundarins er nú kominn í lag. Skoðun sýnir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að samkvæmt skýrslu sem unnin hefði verið um lendingar á neyðarbrautinni svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli kæmi fram að lent væri af og til á brautinni en það væri „merkilegt“ að úttektin sýndi fram á að í nær öllum tilvikum hefði verið hægt að lenda á hinum brautunum. Þegar farið væri yfir allan þennan árafjölda segði í skýrslunni að aðeins í þremur tilvikum á níu árum hefði verið of mikill hliðarvindur þegar lent hefði verið á brautinni til þess að lenda á öðrum brautum. Í tveimur þeirra þriggja tilvika hefði verið svo vitlaust veður að yfirhöfuð hefði ekki verið flugfært. Í sumum þeirra tilvika sem lent hafi verið á neyðarbraut hefði því hæglega verið hægt að lenda annars staðar. Gerð var athugasemd við ummæli Dags síðar á fundinum og staðhæft af hálfu borgarfulltrúa minnihlutans að hann tæki ekki tillit til hemlunarskilyrða á blautum brautum sem væru ein skýring þess að neyðarbrautin var notuð og sýndi mikilvægi hennar.
Hvað varðar þau ummæli Njáls, sem er flugumferðarstjóri á Akureyri og situr einnig sem bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að borgarstjóri hafi sagt að aðilar í sjúkraflugi hefðu verið með „leikrit“ í gangi liggur fyrir samkvæmt upptökunni af fundinum að borgarstjóri sagði að honum fyndist „athyglisvert“ að lent hefði verið á neyðarbrautinni á nýrársnótt. Ekkert hefði þá verið að veðri, mörg vitnu gætu staðfest það því hálf þjóðin hefði verið að skjóta upp flugeldum.
Getur svo hver og einn metið hvort ástæða er til að krefja Dag, oddvita Samfylkingar í borginni, um afsökunarbeiðni á grunni ummæla hans.
Fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins er lega Reykjavíkurflugvallar og neyðarbrautin mikið tilfinningamál, enda hefur ekki verið hrakið að það geti skipt sköpum þegar fársúkt fólk er flutt með sjúkraflugi hvort hægt sé að koma sjúklingum í hendur lækna á Landspítalanum á sem skemmstum tíma.
Meirihluti borgarstjórnar horfir til aukinnar nýtingar landrýmis.
Fólk úti á landi vill njóta öryggis ef eitthvað kemur upp.
Þar stendur hnífurinn í kúnni – svo reynt sé að greina kjarna flókins máls í sem fæstum orðum.
(Þessi fréttaskýring Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut.)