Furðu hljótt er um það hvernig Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætlar að bregðast við upplýsingum um Tortólaviðskipti hans sem fram komu þegar Panamaskjölin voru gerð opinber fyrir nokkrum vikum.
Bjarni virðist halda að hann geti beðið þennan storm af sér en það verður sífellt erfiðara. Flokkur hans getur ekki verið svo geðlaus að hann láti sem ekkert sé að ætli sér að treysta á forystu Bjarna í næstu kosningum með þetta mál óútskýrt á bakinu. Víst er að formaður Framsóknar hefur þurft að víkja sem forsætisráðherra vegna Tortólamála en nöfn þriggja ráðherra birtust í Panamaskjölunum, Sigmundar, Bjarna og Ólafar Nordal.
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt af sér vegna þessara mála og borgarfulltrúi Framsóknar, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, er í leyfi frá störfum borgarfulltrúa vegna málsins. Þá hefur framkvæmdastjóri Framsóknar hætt störfum af sömu ástæðu þó hann sé ekki kjörinn fulltrúi eins og hin sem hér eru nefnd.
Nú hefur Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga birt álit sem unnið var að beiðni forsætisnefndar Reykjavíkurborgar um eignir kjörinna fulltrúa í skattaskjólum. Þar segir meðal annars að eignir í aflandsfélögum beri ekki vott um sterka borgaralega ábyrgð og grafi undan tiltrú almennings á kjörnum fulltrúum.
Þó svo borgaryfirvöld hafi ekkert yfir ráðherrum að segja, þá er það ljóst að umrætt álit gildir vitanlega um alla kjörna fulltrúa, hvort heldur þeir eru kjörnir í Alþingiskosningum eða í sveitarstjórnarkosningum. Þeir eru allir kjörnir trúnaðarmenn kjósenda, fólksins í landinu, sem verða að geta treyst heiðarleika þeirra og ábyrgðartilfinningu. Það er skýr niðurstaða siðanefndarinnar að stjórnmálamenn sem stunda viðskipti í gegnum aflandsfélög sýni ekki sterka borgaralega ábyrgð.
Bjarni Benediktsson verður að horfast í augu við þessa niðurstöðu og hann getur ekki látið eins og ekkert sé. Ef hann getur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum – sem vandséð er hvernig hann ætti að geta – þá hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að víkja honum til hliðar og kjósa nýjan formann á næstu vikum til að leiða flokkinn í komandi kosningum. Annars er eins víst að Bjarni verði undir í kosningabaráttunni og þurfi að liggja í endalausri vörn vegna Tortólaviðskipta og skorts á borgaralegri ábyrgð. Það er auðvitað ekkert grín að fjármálaráðherra, sem er æðsti yfirmaður skattamála ríkisins, hafi orðið uppvís að því að geyma fjármuni sína í skattaskjólum.
Til hvers eru skattaskjól ef ekki til að skýla sér fyrir skattgreiðslum. Og sjálfur skattamálaráðherrann gengur á undan og aldeilis ekki með góðu fordæmi. Aldeilis ekki.
Getur verið að krafa um “borgaralega ábyrgð” stjórnmálamanna gildi bara um suma en ekki aðra?
Ætla flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum að láta það viðgangast að sú krafa þurfi ekki að gilda um formann flokks þeirra?
Ætla má að flestir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum sjái þetta og það valdi þeim vanlíðan. En vandi flokksins er sá að það er enginn forystumaður í sjónmáli til að taka við af Bjarna Benediktssyni ef honum verður vikið til hliðar. Það gæti verið trygging hans fyrir áframhaldandi formennsku enn um sinn.
Ekki er neinn sýnilegur arftaki Bjarna í núverandi ráðherra-eða þingmannaliði. Ólöf Nordal varaformaður á við vanheilsu að stríða, Hanna Birna hættir þingmennsku, Illugi Gunnarsson er rúinn trausti út af fjármálasukki, Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur ekki risið undir væntingum og Einar Kristinn Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafa ákveðið að hætta á þingi fyrir flokkinn. Kristján Þór Júlíusson er eini ráðherrann sem hefur komist klakklaust gegnum kjörtímabilið þrátt fyrir að hafa stýrt afar erfiðu ráðuneyti. Hann þykir þó ólíklegur til að geta orðið formaður flokksins.
Og svo er það Guðlaugur Þór Þórðarson sem bíður tilbúinn í hvað sem er. Þráir að verða ráðherra að nýju og komast í fremstu víglínu flokksins sem honum hefur verið bolað út úr. Guðlaugur og stuðningsmenn hans líta á það sem tímabundið ástand. Ætli honum verði ekki að ósk sinni?
Guðlaugur Þór Þórðarson gæti orðið formaður Sjálfstæðisflokksins innan nokkurra vikna.