Ísland er eins og barn sem lent hefur á milli foreldra í miklum átökum erfiðs hjónaskilnaðar. Þetta er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í viðtali viðbreska dagblaðið Daily Telegraph 20. apríl sl.: [„Likening Iceland to a child caught in the crossfire between two feuding parents in a messy divorce...”] Guðlaugur Þór segir jafnframt í viðtalinu að viðskiptahindranir séu engum hagkvæmar. „Ég tel augljóst að endingu sé það hagur allra að hafa frjáls viðskipti í Evrópu líkt og áður,“ segir utanríkisráðherrann.
Furðulegt framlag til breskrar einangrunar
Það sem er athyglisvert við þetta viðtal er að sami Guðlaugur Þór hefur hvatt Breta opinberlega til úrsagnar úr Evrópusambandinu og hinum sameiginlega markaði Evrópuríkjanna. Grein Guðlaugs, birtist ‚i Breska blaðinu Telegraph 10. júlí 2015 undir hinni fleygu fyrirsögninni „Kæra Bretland, það er líf fyrir utan Evrópusambandið“. Þar eru Bretar jafnframt hvattir til þátttöku í EFTA.
Og Guðlaugur Þór á sér ekki eingöngu skoðanasystkini í Heimssýn og á Útvarpi Sögu. Meðhöfundur Guðlaugs Þórs í þessari furðulegu blaðagrein er Thomas Aeschi þingmaður Schweizerische Volkspartei. Sá flokkur er þekktur þar í landi fyrir baráttu fyrir hertri útlendingalöggjöf. Auk útlendingahaturs hefur þessi nýi vinaflokkur Sjálfstæðisþingmannsins í Sviss auðvitað barist gegn loftslagssamningi Sameinuðu Þjóðanna um hlýnun loftslags. Fáir vita á hvaða vegferð Sjálfstæðislokkurinn er í utanríkismálum með vali flokksins á samstarfsflokkum í Evrópu.
Síðar sama ár, 28. október 2015, er vitnað í Guðlaug Þór í sama blaði. „Ég get ekki séð neinn hag í aðild að Evrópusambandinu hvorki til lengri eða skemmri tíma.“ Og hann bætir við: „Það er leið til að fá aðgang að mörkuðum Evrópu án þess að vera í hinu pólitíska sambandi.“
Guðlaugur Þór hefur rangt fyrir sér þegar hann þykist sjá tækifæri Íslands falin í Brexit. Honum væri nær að skrásetja öll þau miklu tækifæri.
Íslenskir hagsmunir í erfiðri stöðu
En nú loks eftir að hafa hvatt Breta til einangrunar varð Guðlaugi Þór það skyndilega ljóst að öll þessi óvissa myndi setja íslenska hagsmuni í erfiða stöðu. Úpps, barnið Ísland er sumsé komið í miðjar hjónabandsdeilur - sem það sjálft klappaði upp.
Hvernig þessi einangrun Breta getur styrkt þá er auðvitað með öllu óljóst, líkt og flestar vinaþjóðir Bretlands kepptust við að benda þeim á. Fríverslun er ágæt en hún er bara ekki nóg. Í flóknum heimi þurfa þjóðir að vinna saman vegna umhverfismála, málefna flóttamanna og í baráttunni gegn hryðjuverkum svo nokkuð sé nefnt. Sameiginlegar leikreglur viðskipta krefja menn um að hafa dómara þegar þær eru brotnar. Þetta er sérstaklega smærri þjóðunum mikilvægt.
Vinir Breta sögðu þá veikjast verulega
Flest allar vinaþjóðir Breta hvöttu þá til áframhaldandi aðildar að Evrópusambandinu. Það var samdóma álit þeirra að úrsögn úr sambandinu muni veikja Bretland verulega á alþjóðavettvangi. Og listinn er lengri: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði við útgöngu Breta og sagði hættu á að hún veiki Bretland efnahagslega og dragi að auki úr efnahagsvexti. Efnahags og framfarastofnunina OECD tók í sama streng. Og framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, gerði það sama og sagði þátttöku Breta í Evrópusambandi styrkja öryggi þeirra.
Ofangreint var sagt með hag Breta að leiðarljósi. En auðvitað eru hagsmunirnir gagnkvæmir. Það skiptir til að mynda Íslendinga gríðarlegu máli að Bretar haldi styrk sínum í Evrópu og á alþjóðavettvangi. Það kann að hafa talsverð áhrif á utanríkisstefnu Íslands ef Bretland einangrast í Evrópu og alþjóðlega. En allt kom fyrir ekki. Pólitískur popúlismi fór á flug eins og tíðkast þessa dagana. „Nei-hreyfingarnar“, andstæðingar Evrópusamvinnu allra landa sameinuðust og ólu á ótta við útlendinga og sagt var að flest frá Evrópusambandinu væri illt. Þessi alþjóðasamvinna væri alltof dýr.
Umræðan hér á landi var af sama meiði. Einangrunarstefna Heimssýnar úr hinni íslensku Bændahöll blífur. Þetta furðulegt framlag íslenska utanríkisráðherrans til breskrar einangrunar verður lengi í minnum haft og þarfnast upprifjunar á næstu misserum.