Sú furðulega staða er komin upp að barnabarn sægreifa sækist eftir að verða formaður Samtaka iðnaðarins í stjórnarkosningum sem eru framundan. Guðlaug Kristinsdóttir, sem er barnabarn Aðalsteins heitins Jónssonar, Alla ríka á Eskifirði, býður sig fram til formanns. Hún er stjórnarformaður Vírnets í Borgarnesi en hefur aldrei starfað í iðnaði eða verið daglegur stjórnandi í iðnfyrirtæki en einungis stjórnarmaður á vegum foreldra sinna sem hafa fjárfest víða.
Alli ríki var einn þekktasti og umtalaðisti útgerðarmaður síðustu aldar á Íslandi. Hann rak Hraðfrystihús Eskifjarðar sem var umsvifamikið í mörgum greinum sjávarútvegs. Eftir fráfall hans og eiginkonunnar keypti dóttir þeirra aðra erfingja út úr Hraðfrystihúsi Eskifjarðar og rekur það nú ásamt eiginmanni sínum, Þorsteini Kjartanssyni aflaskipstjóra. Aðrir erfingjar, eins og Kristinn Aðalsteinsson faðir Guðlaugar, hurfu úr fyrirtækinu og fjárfestu á öðrum sviðum.
Kosið verður um formann Samtaka iðnaðarins milli Guðlaugar og Árna Sigurjónssonar varaformanns Samtaka iðnaðarins. Hann er yfirlögfræðingur og einn af æðstu stjórnendum Marels hf. sem er langstærsta og verðmætasta iðnfyrirtæki Íslands með yfir 6.000 starfsmenn á Íslandi og víða um heim. Árni hefur átt sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins í fjögur ár og jafnframt í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins.
Framboð Guðlaugar þykir vægast sagt einkennilegt og beinlínis óviðeigandi. Að barnabarn eins helsta útgerðarmanns Íslandssögunnar sækist eftir formennsku í Samtökum iðnaðarins gengur ekki vel upp. Hér er á ferðinni einkennilegt plott sem væntanlega má rekja til helstu undirróðursmanna sægreifa og handlangara þeirra. Iðnaðaur og sjávarútvegur hafa í gegnum tíðina oft tekist á í hagsmunabaráttu atvinnulífsins þó einnig hafi verið ágætt samstarf milli greinanna á sumum sviðum, einkum í málefnum tengdum íslenskum vinnumarkaði.
Fram til þessa hefur fólki úr íslenskum iðnaði verið treyst fyrir formennsku í Samtökum iðnaðarins og engum öðrum. Væntanlega verður engin breyting á þeirri stefnu í komandi kosningum samtakanna.