Banvænt æxli var kallað bólga

 

Ríkisútvarpið hefur hrundið af stað þáttaröð á Rás 1 sem ber heitið Listin að deyja. Í kynningu á þættinum er vitnað til ýmissa herferða undanfarið sem hafi það markmiði að ryðja fyrirbærum til rúms, koma þeim burt úr þagnargildi. Dauðinn hafi lengst af verið launhelgur, tabú. Tímabært sé að draga dauðann fram í dagsljósið, setja hann á dagskrá.

Margir kannast við að hafa upplifað það sem erfiða umræðu þegar ung börn fara í fyrsta skipti að velta fyrir sér dauðanum, upplifa ákveðið öryggisleysi, Paradísarmissi mætti kalla það. Börnin spyrja foreldrana, þá ríður á að skýla sér ekki bak við þykka veggi eða espa óttann með þögn eða útúrsnúningi Að ofvernda börn með því að leyna þeim örlögum eða pakka þeim inn í misheppilegan búning getur reynst dýrkeypt.

Dauðinn er það eina sem allt fólk á sannarlega sameiginlegt. Um hann er of lítið fjallað sem eðlilegan hluta af lífinu. Fyrsti þátturinn af Listinni að deyja, sem er sama heiti og á ráðstefnu sem fram fór í vor um málefnið, fór í loftið í morgun. Allir þekkja klisjuna um mikilvægi þeirrar listar að lifa, en fólk hefur ólíkar sögur af dauðareynslu að segja, kannski eftir því hvort ástvinir hafa verið tilbúnir fyrir ferðalagið eða ekki. Sumir virðast sjálfmenntaðir í tímamótunum og fara með reisn og í ró. Aðrir hafa upplifað dauðastundir aðstandenda sem hrylling. Vitaskuld skiptir miklu hvernig dauðann ber að, hvort um börn eða gamalmenni er að ræða, hvort hinn látni hefur lifað þannig að hann sé tilbúinn til ferðarinnar eða ekki. En burtséð frá slíkum pælingum kom margt forvitnilegt fram í fyrsta þættinum á Rúv.

M.a. kom fram að ekki er langt síðan heilbrigðisstarfsfólki hér á landi var kennt að segja satt þegar kom að dauðameinum sjúklinga. Æxli var e.t.v. kallað fyrirferð eða bólga ef lá fyrir að erfitt yrði að meðhöndla það. Skortur á hreinskilni var sagður í samskiptum, misskilin tillitssemi og vankunátta sem voru hamlandi fyrir hinn dauðvona sem og aðstandendur og starfsfólk sem vinnur við dauðann. Fyrrum hjúkrunarfræðingur lýsti hvernig hún hafði ekki fengið neina þjálfun í námi sínu til að takast á við dauðann. Hún hefði jafnvel hörfað burt úr sjúkrastofu þegar tækifæri gafst til að veitt mestu hjálpina.

Fram kom einnig að þessi mál hefðu þróast til betri vegar þegar fyrstu sérhæfðu krabbameinslæknarnir sneru  aftur til Íslands úr námi. Þeir fengu fyrstir lækna þjálfun í að segja satt, sem talið er gilda miklu fyrir fólk með ólæknandi sjúkddóm. Einnig kom fram að því fer fjarri að lífinu sé lokið þótt fólk hafi greinst með ólæknandi mein og sé jafnvel komið í líknarmeðferð. Þá reynir á listina að deyja – eins og kannski háttar til um alla lífsgönguna.

Líta mætti ef til vill á lífið sem æfingu fyrir dauðann?

Þeir sem eru áhugasamir um listina að deyja geta hlustað á þáttinn hér. Hann er í umsjá Ævars Kjartanssonar og Huldu Guðmundsdóttur og mér finnst full ástæða til að mæla með honum.

(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)