Í tekjublaði DV sumarið 2017 kom fram að forstjóri Bankasýslu ríkisins hefði haft um 4,5 milljónir króna í tekjur á mánuði árið 2016. Það jafngildir rúmum 5 milljónum króna nú. Sjá meðfylgjandi mynd.
Ekki er að sjá nein merki þess að Bankasýsla ríkisins eða forstjórinn sjálfur hafi haft fyrir því að gera athugasemd við þessar upplýsingar DV frá því í júlí 2017. Nú kemur hins vegar fram að starfskjör forstjórans séu mun lægri og að ruglings hafi gætt hjá DV.
Á Hringbraut.is var vitnað í upplýsingar DV enda hafði ekkert komið fram um að þær upplýsingar væru ekki réttar.
Hringbraut hefur beint fyrirspurnum til Bankasýslunnar sem hefur ekki verið svarað. Spurt var um starfskjör forstjóra, sjóðsstjóra og lögfræðings sem allir eru sagðir starfsmenn Bankasýslu ríkisins samkvæmt heimasíðu hennar. Þá var spurt um heildarkostnað við rekstur Bankasýslunnar á ári og hve háar fjárhæðir rynnu til hennar samkvæmt fjárlögum ríkisins.
Ástæða er til að spyrja einnig hver séu verkefni þriggja háskólamenntaðra starfsmanna Bankasýslu ríkisins en hlutverk hennar er að vista þrjú hlutabréf í eigu ríkisins. Þar er um að ræða hlutabréf í Landsbanka, Íslandsbanka og einum sparisjóði.
Lögum samkvæmt átti að leggja Bankasýslu ríkisins niður fyrir þremur og hálfu ári, eins og Karl Gauti Hjartarson alþingismaður og fyrrum sýslumaður benti á nýlega í blaðagrein.
Stjórn Bankasýslu ríkisins skipa Lárus Blöndal formaður, Vilhjálmur Bjarnason fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokks og Margrét Kristmannsdóttir hjá Phaff.
Verkefnalaus bankasýsla á ofurlaunum

Fleiri fréttir
Nýjast