Sex mánuði hefur það tekið ríkisendurskoðun að koma saman 60 blaðsíðna skýrslu um sölu ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka sem fram fór í mars. Sala þessara eignarhluta var af mörgum talin æskileg en framkvæmd sölunnar virðist hafa klúðrast á ýmsan hátt.
Niðurstaða stjórnvalda var að kalla eftir úttekt ríkisendurskoðunar á framkvæmd sölunnar. Sú niðurstaða fékkst í maí á þessu ári og átti ekki að taka langan tíma. Skýrslan átti að birtast í lok júní en það tókst ekki og var frestað um mánuð og svo aftur og aftur um mánuð í senn þar til grunur vaknaði um að efni skýrslunnar væri erfitt fyrir fjármálaráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á framkvæmd sölunnar. Þá fóru að heyrast raddir um að skýrslunni yrði haldið leyndri fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Það tókst en lítur vitanlega alls ekki vel út fyrir formanninn sem stendur í harðri kosningabaráttu innan flokksins.
Bjarni Benediktsson ber vitaskuld ábyrgð á framkvæmd sölunnar þó að embættismenn og Banaksýsla ríkisins hafi haft verkið með höndum. Fram hafa komið ýmsar upplýsingar um margháttaða ágalla við sölu hlutabréfanna. Vakið hefur furðu að ekki skuli hafa verið drifið í því að fullgera þessa skýrslu, birta hana og ljúka umræðum um efni hennar. Ljóst er að skýrslan felur í sér niðurtöður sem þola illa dagsljósið – alla vega þara til landsfundur Sjálfstæðisflokksins er afstaðinn.
Skýrsla ríkisendurskoðunar er einungis 60 blaðsíður að stærð. Furðu vekur að hún sé ekki meiri að vöxtum eftir að hafa verið hálft ár í smíðum. Til hafa orðið 10 blaðsíður af efni að meðaltali á mánuði sem geta varla talist lífleg afköst.
Skýrslan hefur verið til umsagnar bæði í fjármálaráðuneytinu og hjá Bankasýslu ríkisins. Á báðum stöðum var henni tekið illa enda birtist þar hörð gagnrýni á vinnubrögð ráðuneytisins og undirstofnunar þess. Hermt er að Bankasýslan hafi gert athugasemdir við efni skýrslunnar upp á 15 blaðsíður, sem er fjórðungur af umfangi sjálfrar skýrslunnar! Fjármálaráðuneytið hefur einnig haft margt við efni skýrslunnar að athuga enda beinist hörð gagnrýni að framgöngu ráðuneytisins við sölu umræddra eignarhluta.
Málið er ótrúlegt klúður. Bæði vinnubrögð framkvæmdaaðila útboðsins og ekki síður pólitískt fyrir ábyrgðarmann verksins, Bjarna Benediktsson.
Efni þessarar langþráðu skýrslu verður væntanlega birt opinberlega í næstu viku. Þá verður landsfundur Sjálfstæðisflokksins að baki og því ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði.
- Ólafur Arnarson.