Tveimur tímum eftir að Jerome Powell, formaður bankastjórnar bandaríska seðlabankans, sagði í gær að yfirtaka First Republic bankans hefði verið mikilvægt skref til að binda enda á óróa í bankakerfinu hafði gengi hlutabréfa í öðrum svæðisbundnum banka fallið um meira en helming.
Ástæða lækkunarinnar var fréttaflutningur um að PacWest bankinn, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Beverly Hills í Kaliforníu, væri að íhuga leiðir til að forða sér frá þroti, til greina kæmi að selja bankann eða sækja meira eigið fé til fjárfesta. Hlutabréf bankans lækkuðu enn eftir opnun markaða í morgun.
Fjárfestar hafa áhyggjur af fleiri svæðisbundnum bönkum. Þar á meðal er Western Alliance bankinn í Phoenix í Arizona sem einnig er sagður íhuga sölu að hluta eða öllu leyti. First Horizon bankinn í Memphis í Tennessee féll um meira en 38 prósent í dag eftir að Toronto-Dominion bankinn féll frá áformum um að yfirtaka bankann.
Þessir atburðir gefa til kynna að fjárfestar treysti því varlega að nóg hafi verið gert til að afstýra frekari hremmingum í bankakerfinu þrátt fyrir að háttsettir embættismenn og forstjórar stórra fjárfestingabanka leggi mikið kapp á að fullvissa þá um að nú sé bjartara fram undan.