Svo virðist sem vefmiðlarnir Kjarninn og Stundin stefni að sameiningu rekstrar síns. Ríkismiðillinn sló upp fréttum um viðræður þessara aðila í gær eins og um risafrétt væri að ræða. RÚV þykir reyndar sérstaklega vænt um þessi tvö fyrirtæki og hefur átt mikið samstarf við þau á síðustu misserum í ýmsum hernaði gegn hinum og þessum sem skilgreindir eru sem andstæðingar miðils og þjóðar. RÚV hefur notað Kjarnann og Stundina sem bandamenn í baráttu sinni gegn völdum andstæðingum. Hefur það oft orkað tvímælis, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríkismiðillinn eigi í slíku samstarfi og ástundi þau vinnubrögð sem raun ber vitni.
Ekkert er hins vegar nema gott um það að segja að fyrirtæki leiti leiða til að hagræða í rekstri sínum. Gildir það jafnt um fjölmiðlafyrirtæki sem aðra í atvinnulífinu.
Fram hefur komið að Kjarninn var á síðasta ári með sex störf á sínum vegum og rekstrartekjur námu 107 milljónum króna. Í september á þessu ári fékk Kjarninn rekstrarstuðning frá ríkinu að fjárhæð 15 milljónir króna sem er að þessu sinni hæsti hundraðshluti af rekstrartekjum, 14 prósent, samkvæmt yfirliti sem birtist í Morgunblaðinu þann 21. september sl. Starfsmannafjöldi Stundarinnar á sama tíma var tólf störf, rekstrartekjur námu 234 milljónum króna og opinber rekstrarstuðningur 22 milljónir króna eða 10 prósent.
Ríkisstuðningur við stærstu fjölmiðla landsins samkvæmt umræddu yfirliti nam einu til tveimur prósentum. Kjarninn og Stundin eru þannig meðal þeirra litlu fjölmiðla sem löggjafanum viðrist þykja mest um vert að veita opinberan stuðning sem munar um.
Í síðustu viku var upplýst að fjölmiðillinn N-4 á Akureyri hefði gert atlögu að fjárlaganefnd Alþingis til að fá sérstakan viðbótarstyrk á fjárlögum að fjárhæð 100 milljónir króna, til viðbótar við 21 milljón króna sem N-4 hafði fengið í rekstrarstuðning frá ríkissjóði í september á þessu ári. Það þótti vægast sagt vel í lagt. Við nánari skoðun kom á daginn að af þessu máli var megn spillingarfnykur enda var málið stöðvað í meðförum Alþingis. Meðal þeirra sem studdu málið í fjárlaganefnd var Stefán Vagn Stefánsson, mágur framkvæmdastjóra N-4. Honum þótti engin ástæða til að víkja sæti við afgreiðslu málsins vegna þeirra tengsla! Þá áttu einnig sæti í fjárlaganefnd nokkrir þingmenn norðurkjördæma og þeim þótti ekki heldur neitt athugavert við svona sértæka afgreiðslu á þessari ætluðu jólagjöf skattgreiðenda til dvergmiðilsins á Akureyri.
Siðferði þingmanna er að sönnu ekkert sérstakt þegar kemur að afgreiðslu mála sem varða vini, vandamenn og kjósendur í nærumhverfinu.
- Ólafur Arnarson.