Hringbraut.is birtir í dag hjartnæma hugleiðingu Baldvins Jónssonar þar sem fram koma áhyggjur af vinum hans í bændastétt.
Baldvin óttast að þeir séu að missa móðinn í baráttunni fyrir auknum tekjum. En hvert sækja bændur auknar tekjur? Með meiri sölu eins og aðrar atvinnugreinar myndu gera? Nei. Með aukinni hagræðingu? Nei. En hvert þá?
Sauðfjárbændur fengu 600 milljónir í viðbótartekjur á fjárlögum síðast. Það var til viðbótar við árlega ríkisstyrki til bænda upp á nærri 30 milljarða króna samkvæmt búvörusamningi sem ríkið hefur gert gegn hagsmunum skattgreiðenda og neytenda.
Baldvin finnst þetta ekki nóg og hvetur vini sína til dáða. Þeir eiga að herja meira á ríkissjóð um styrki. Þeir eiga að mæta með betlistaf í hendi og krefja fjármálaráðherra um enn meiri skattpeninga í sauðfjárrækt. Þá myndu þeir hitta fyrir Bjarna Benediktsson, en svo skemmtilega vill til að hann er tengdasonur Baldvins!
Sauðfjárrækt ber sig ekki. Það er ekki vandamál ríkissjóðs. Það er vandamál þeirra sem hafa valið sér búskap sem lífsstíl. Skattgreiðendur og neytendur eiga ekki að borga þetta tómstundagaman bænda.
Baldvin Jónsson reyndi á annan áratug að selja Ameríkumönnum íslenskar landbúnaðarvörur. Hann fékk tugi milljóna á ári í þessar tilraunir frá ríkissjóði, samtökum bænda og Íslandsstofu. En árangurinn var enginn. Stórt núll eftir meira en áratugsbrölt og mörghundruð milljóna fjárframlög.
Baldvin veit því að útflutningur mun ekki hjálpa þessari starfsemi.
Og þá skal vísað á skattgreiðendur í enn ríkari mæli. Nú er lag sem aldrei fyrr enda þrír framsóknarflokkar við völd.
Fréttin sjálf
http://www.hringbraut.is/frettir/fjallraeda-baldvins#.W18lIBLoONw.email
Rtá.