Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir æskilegast að við varnir landsins sé í hið minnsta hundrað manna varnarlið sem geti varist innrás í Ísland þar til liðsauki berst frá NATO. Þetta kemur fram í viðtali við Baldur í hlaðvarpi Harmageddon.
Þar er rætt um innrás Rússa í Úkraínu og öryggismál á Íslandi. Baldur segir nauðsynlegt að ræða af alvöru öryggis- og varnarmál á Íslandi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
„Þessar sveitir sem eru að verja lofthelgina og fylgjast með óvinaflugvélum og kafbátum, þær verja okkur ekki - þær verða ekki kallaðar til taks ef að eitthvað gerist hér í Reykjavík eða annarsstaðar á landinu, þær eru ekki til þess,“ segir Baldur um loftrýmisgæslu sem NATO stundar hérlendis.
Þá spyr þáttastjórnandinn Frosti Logason Baldur hversu stórt lið þurfi á Íslandi til að vera með lágmarksvarnir hérlendis.
„Ég held það fari eftir aðstæðunum hveru sinni. Að mínu mati er mjög mikilvægt að geta brugðist við lítilli, takmarkaðri árás þannig hægt sé að verjast þangað til að liðsafli berst frá bandalagsþjóðum okkar í NATO,“ segir Baldur.
„Við þurfum að geta varið Keflavíkurflugvöll, við þurfum að geta varið helstu stjórnsýslustofnanir í Reykjavík þangað til liðsafli berst. Ég sé fyrir mér ef þú vilt nefna einhverja tölu, hundrað manna sérsveit, myndi jafnvel vera nóg.“
Máni Pétursson þáttastjórnandi bendir Baldri á að það yrði erfitt fyrir Íslendinga að kyngja þessu, hér sé umdeilt að vopna lögreglumenn með rafbyssum.
Þá svarar Baldur: „Já, en við erum nátúrulega að tala um varnarlið eða herlið. Hér voru á tímabili 5000 hermenn í kalda stríðinu, en við vitum hvað það þýðir fyrir átökin í íslenskum stjórnmálum. En að mínu mati kalla þesir skelfilegu atburðir í Úkraínu á þetta og ég sé að hún er að fara fram í alþjóðasamfélaginu, en þetta er mjög viðkvæmt og þetta er viðkvæmt á stjórnarheimilinu í dag.“