Baldur: Þurfum hundrað manna varnar­lið

Baldur Þór­halls­son, stjórn­mála­fræði­prófessor, segir æski­legast að við varnir landsins sé í hið minnsta hundrað manna varnar­lið sem geti varist inn­rás í Ís­land þar til liðs­auki berst frá NATO. Þetta kemur fram í við­tali við Baldur í hlað­varpi Harma­gedd­on.

Þar er rætt um inn­rás Rússa í Úkraínu og öryggis­mál á Ís­landi. Baldur segir nauð­syn­legt að ræða af al­vöru öryggis- og varnar­mál á Ís­landi í kjöl­far inn­rásar Rússa í Úkraínu.

„Þessar sveitir sem eru að verja loft­helgina og fylgjast með ó­vina­flug­vélum og kaf­bátum, þær verja okkur ekki - þær verða ekki kallaðar til taks ef að eitt­hvað gerist hér í Reykja­vík eða annars­staðar á landinu, þær eru ekki til þess,“ segir Baldur um loft­rýmis­gæslu sem NATO stundar hér­lendis.

Þá spyr þátta­stjórnandinn Frosti Loga­son Baldur hversu stórt lið þurfi á Ís­landi til að vera með lág­marks­varnir hér­lendis.

„Ég held það fari eftir að­stæðunum hveru sinni. Að mínu mati er mjög mikil­vægt að geta brugðist við lítilli, tak­markaðri árás þannig hægt sé að verjast þangað til að liðs­afli berst frá banda­lags­þjóðum okkar í NATO,“ segir Baldur.

„Við þurfum að geta varið Kefla­víkur­flug­völl, við þurfum að geta varið helstu stjórn­sýslu­stofnanir í Reykja­vík þangað til liðs­afli berst. Ég sé fyrir mér ef þú vilt nefna ein­hverja tölu, hundrað manna sér­sveit, myndi jafn­vel vera nóg.“

Máni Péturs­son þátta­stjórnandi bendir Baldri á að það yrði erfitt fyrir Ís­lendinga að kyngja þessu, hér sé um­deilt að vopna lög­reglu­menn með raf­byssum.

Þá svarar Baldur: „Já, en við erum nátúru­lega að tala um varnar­lið eða her­lið. Hér voru á tíma­bili 5000 her­menn í kalda stríðinu, en við vitum hvað það þýðir fyrir á­tökin í ís­lenskum stjórn­málum. En að mínu mati kalla þesir skelfi­legu at­burðir í Úkraínu á þetta og ég sé að hún er að fara fram í al­þjóða­sam­fé­laginu, en þetta er mjög við­kvæmt og þetta er við­kvæmt á stjórnar­heimilinu í dag.“