Báknið blómstrar

Núverandi ríkisstjórn mun á fyrstu þremur starfsárum sínum auka útgjöld um rúmlega 130 þúsund krónur á mánuði á hverja fjölskyldu. Öll munar okkur um slíkar fjárhæðir og því mikilvægt að vel sé farið með allan þennan pening. Að fjármunum sé forgangsraðað í nauðsynleg útgjöld.

Ríkisstjórnin segir okkur ítrekað að hér sé verið að forgangsraða í þágu menntunar og velferðarmála. Það var loforðið sem gefið var í upphafi þessa kjörtímabils og endurspeglaði einmitt áherslur kjósenda í síðustu tvennum kosningum. Vissulega er útgjaldaaukningin mikil á valdatíma þessarar stjórnar. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs munu útgjöld ríkissjóðs án vaxtakostnaðar hafa aukist um 205 milljarða króna frá því þessi stjórn tók við völdumeða rétt tæplega 30% aukningu á þremur árum.

En þegar betur er að gáð standast yfirlýsingar stjórnarinnar um forgangsröðun engan veginn. Forgangsröðun felur væntanlega í sér að útgjöld til þeirra málaflokka sem eru í forgangi aukist hlutfallslega meira en útgjöld til annarra málaflokka. En hver er raunin? Í fjárlögum 2020 er gert ráð fyrir að útgjöld til mennta- og velferðarmála (án atvinnuleysis) aukist samtals um 24% á fyrstu þremur árum þessarar stjórnar. Útgjöld til háskólaumhverfisins, sem stjórnvöld hafa verið dugleg við að lýsa metnaðarfullum útgjaldaáformum sínum með, aukast um rúmlega 8% á þessu tímabili.

Báknið þanið

Útgjöld til annarra málaflokka samanlagt munu aukast um 35% á sama tíma. Þeir málaflokkar sem fá hvað mesta hlutfallslega aukningu er æðsta stjórn ríkisins, Alþingi, utanríkismál, skatta- og eignaumsýsla og samgöngumál. Útgjöld til allra þessara málaflokka aukast um meira en 40% á tímabilinu. Fyrstu fjórir liðirnir eru sannarlega dæmi um útþenslu ríkisbáknsins. Forgangsröðun í þágu samgöngumála er lofsverð en rétt þó að hafa í huga að við erum enn undir langtímameðaltali varðandi fjárfestingu í vegakerfinu okkar. Það endurspeglar engan veginn þá miklu aukningu sem orðið hefur á umferð samhliða miklum vexti ferðaþjónustunnar.

Forgangsröðunin er því augljóslega allt önnur en af er látið. Skrifræðið blæs út og kostnaður við stjórnsýsluna er að aukast hlutfallslega mun meira en kostnaður við heilbrigðis- og velferðarkerfið okkar. Þessi mikla útgjaldaaukning endurspeglar enga forgangsröðun heldur einfaldlega að ríkisstjórnin hefur misst tökin á ríkisfjármálunum.

Ólíkt hafast þau að

Annað merki um aðhaldsleysi er sú staðreynd að starfmönnum hins opinbera hefur lengi fjölgað talsvert meira en á almennum vinnumarkaði. Nú er tekið að hægja á og á undanförnum tveimur árum hefur störfum á almenna vinnumarkaðinum fækkað um tæplega 4 þúsund samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á sama tíma hefur störfum hjá hinu opinbera hins vegar fjölgað um nærri 6 þúsund. Með öðrum orðum er atvinnulífið fyrir löngu byrjað að aðlaga sig að minni hagvexti á sama tíma og hið opinbera er ennþá með fótinn á bensíngjöfinni.

En af hverju skiptir þetta máli? Það er mjög mikilvægt að muna að skattheimta er hér enn mjög há. Miklar skattahækkanir eftirhrunsáranna, sem voru nauðsynlegar fyrir ríkissjóð til að ná endum saman, hafa ekki gengið til baka nema að litlu leyti. Tekjuauki ríkissjóðs á þessu ári vegna hækkana á tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja, fjármagnstekjuskatti, tryggingagjöldum, bankasköttum o.fl. nemur rúmum 100 milljörðum króna. Stjórnvöld hafa kynnt áform um lækkun tekjuskatts en á móti er skattalækkunum frestað og nýir skattar kynntir til leiks. Nettó skattalækkun á næsta ári er lítil sem engin. Ísland er háskattaland í alþjóðlegum samanburði, trónum þar efst í samanburði OECD ríkja ásamt Svíþjóð og umtalsvert hærri en frændur okkar í Finnlandi og Noregi.

Það er aldrei þannig að eina leiðin til að bæta þjónustu sé að auka útgjöld og hefur Viðreisn ítrekað bent á það. Það eru fjölmargar leiðir til að auka hagræði og nýta t.d. meira rafræna þjónustu við íbúa. Við erum í úrvalsdeild þegar kemur að innviðum og aðgang almennings að netinu en í besta falli í þriðju deild þegar kemur að rafrænni þjónustu hins opinbera. Ríkið rekur tæplega 200 stofnanir og fyrirtæki. Auðveldlega mætti helminga þann fjölda og auka hagræði verulega.

Eitt sinn var hér stjórnmálaflokkur sem barðist undir slagorðinu „báknið burt“. Sá hinn sami hefur setið hér við stjórnvölinn nær samfellt í tæpa þrjá áratugi, ef undan eru skilin 4 ár svonefndrar vinstri stjórnar. Óhætt er að fullyrða að „báknið“ hefur blómstrað vel undir stjórn þessa flokks og betur nú en nokkru sinni fyrr. Það er alltaf auðvelt að eyða peningum annarra en samt gott að hafa í huga að þetta eru skattpeningarnir okkar. Þá eiga stjórnmálamenn að umgangast af meiri virðingu en núverandi ríkisstjórn. Nú þegar hægir á í hagkerfinu er ljóst að óráðsía þessarar ríkisstjórnar getur ekki gengið lengur. Ég óttast hins vegar að stjórnin muni leita allra leiða til að þurfa ekki að horfast í augu við þann veruleika heldur láta næstu ríkisstjórn það eftir. Það er því hætt við að það verði ærið verkefni að taka til eftir þessa ríkisstjórn.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.