Formaður Bændasamtaka Íslands virðist endanlega hafa misst alla tengingu við raunveruleikann. Hann velti því upp í blaðaviðtali hvort ekki sé komið að því að bændur hafi forgöngu um að stofna sérstakan bændaflokk sem byði fram lista í næstu kosningum. Rök formannsins fyrir því eru þau að hagsmunir bænda séu fyrir borð bornir og landsbyggðin sé afskipt í hagsmunagæslu á Alþingi og reyndar í öllu hinu opinbera kerfi.
Formanninum, Gunnari Þorgeirssyni, virðist vera full alvara með þessu tali. Það virðist hafa farið fram hjá honum að bændur njóta styrkja úr ríkissjóði upp á tugi milljarða króna á hverju ári sem öðrum atvinnugreinum stendur ekki til boða.
Ríkissjóður greiðir ekki með rekstri iðnaðar, verslunar, þjónustu eða ferðaþjónustu á Íslandi. Aftur á móti er deilt um það hvort ríkisvaldið láti sjávarútveg greiða nógu háa leigu fyrir afnot af fiskimiðunum í kringum landið. Fiskimiðin eru skilgreind eign þjóðarinnar og þeir sem hafa afnot af þeirri eign verða að greiða leigu – rétt eins og leigutakar húsnæðis verða að greiða húsaleigu fyrir afnot af því. Veiðileyfagjöld hafa verið færð niður úr öllu valdi í tíð núverandi vinstri stjórnar og þyrftu að hækka um tugi milljarða. Það er reyndar allt annað mál en botnlausir styrkir til rekstrar landbúnaðar.
Ef ekki er unnt að reka landbúnað á Íslandi þannig að hann standi undir sér verður einfaldlega að horfast í augu við það enda getur það ekki verið verkefni ríkissjóðs að verja skattpeningum landsmanna í að halda uppi einni atvinnugrein þegar aðrar atvinnugreinar sjá um sig sjálfar.
Bændur verða að fara að svara því hvort landbúnaður á Íslandi á að vera atvinnugrein eða bara lífsstíll.
Því kemur það úr allra hörðustu átt þegar formaður Bændasamtaka Íslands ásakar núverandi ríkisstjórn um að standa ekki með landsbyggðinni og landbúnaði. Hótun hans er að stofna nýjan bændaflokk. Er Framsóknarflokkurinn eitthvað annað en bændaflokkur? Hvert sækir hann fylgi sitt? Út í sveitirnar og dreifbýlið og nær til sín fylgi landsbyggðarinnar með taumlausri fyrirgreiðslu við dreifbýlið og ekki síður með því að standa vörð um óréttlátt kosningakerfi sem gefur kjósendum á landsbyggðinni tvö atkvæði í alþingiskosningum samanborið við þéttbýli.
Framsóknarflokkurinn náði 13 þingsætum í síðustu kosningum. Fjögur þeirra komu úr Reykjavík og Kraganum þar sem 70 prósent íbúa landsins búa en flokkurinn náði 9 þingsætum í dreifbýlinu. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig landsbyggðarflokkur að hluta. Fylgi hans hefur yfirleitt verið mikið á höfuðborgarsvæðinu þó að hann hafi misst fótanna í höfuðborginni á síðasta aldarfjórðungi. En hann gerir einnig út á landsbyggðarfylgið og stendur með Framsókn í því að tryggja dreifbýlinu tvöfalt atkvæðavægi á við það sem gerist í þéttbýli. Þar er um að ræða ófyrirleitna aðför að lýðræðislegum kosningarétti borgara í þéttbýli. Hvers vegna gildir atkvæði allra jafnt í forsetakosningum? Eru betri rök fyrir því en við Alþingiskosningar?
Bændur -og landsbyggðarfólk beitir kjörna fulltrúa á Alþingi meiri þrýstingi en aðrir. Dæmi: Á sama tíma og núverandi vinstri stjórn birtir fjármálaáætlun til næstu fimm ára og sker niður verkefni eins og þjóðarhöll sem hún hefur lofað landsmönnum margsinnis, er skipuð nefnd að kröfu heimamanna til að kanna alvarlega að setja 18 kílómetra göng úr landi og út í Vestmannaeyjar sem munu kosta skattgreiðendur 100 milljarða króna hið minnsta. Hafa Vestmannaeyingar ekki lifað þarna góðu lífi til þessa án jarðganga?
Samtímis var ítrekað að Seyðfirðingar gætu ekki lengur búið þar án þess að fá jarðgöng undir Fjarðarheiði fyrir 100 milljarða, enda ættu þau einnig að ná til Mjóafjarðar þar sem 30 manns hafa búsetu. Hefur fólk ekki lifað góðu lífi á Seyðisfirði um aldir án þess að hafa hundrað milljarða göng til að flytja þessa fáu íbúa á milli bæjarins og Egilsstaða?
Sem betur fer munu hvorki koma göng til Vestmannaeyja fyrir hundrað milljarða né til Seyðisfjarðar fyrir aðra hundrað milljarða. Íslendingar hafa einfaldlega ekki efni á þessu og það munu áfram takast að koma vitinu fyrir þá sem taka ákvarðanir af þessu tagi. Við Íslendingar erum ekki milljónaþjóð eða milljónatugaþjóð eins og ætla mætti þegar kröfugerðin og heimtufrekjan heyrast sem mest.
Að þessu sinni verður ekki talað um hneykslin á vegum Bændasamtaka Íslands varðandi Bændahöllina og Hótel Sögu sem er ein sorgarsaga og hvernig þrotið þar á bæ var leitt til lykta með því að hengja pinkilinn á hið opinbera. Já, skattgreiðendur, eins og venjulega.
Bændur ættu fyrir alla muni að stofna sérstakan bændaflokk. Í því felst engin hótun fyrir aðra en mögulega Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn sem gætu misst fáein atkvæði á landsbyggðinni. En trúlega ekki svo mörg að um munaði.
- Ólafur Arnarson