Skyndilega stígur bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi fram og lýsir yfir efasamdum um fyrirhugaða borgarlínu sem hún hefur stutt til þessa. Ásgerður Halldórsdóttir var skælbrosandi á mynd sem tekin var af framámönnum allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og birtist í fjölmiðlum fyrr í vetur. Þá hafði Ásgerður engar efasemdir um borgarlínu en nú, sjö vikum fyrir kosningar, telur hún hugmyndina um borgarlínu “hæpna” og vill efla strætó.
Mikill vandræðagangur er í Sjálfstæðisflokknum út af þessu máli. Á fundi fulltrúa sveitarfélaganna voru allir samstiga og áfram um borgarlínu. Ásgerður, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, Ármann bæjarstjóri í Kópavogi og Haraldur bæjarstjóri í Mosfellsbæ brostu þar hvað breiðast með Degi B. Eggertssyni og voru öll jákvæð ásamt fulltrúum Hafnarfjarðar og Garðabæjar. En frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru á móti borgarlínu án þess að hafa neinar tillögur um framtíðarskipan umferðarmála í borginni. Eru á móti “af því bara”.
Ljóst er að Valhöll hefur skipað bæjarstjórum Sjálfstæðisflokksins í nágrannabæjunum að skipta um skoðun og vera á móti borgarlínu til að styðja við stefnu flokksins í Reykjavík. Ásgerður hefur látið undan og telur sér sæma að snúast eins og vindhani á húsmæni í þessu stóra máli. Sannfæring virðist ekki skipta máli heldur línan úr Valhöll. Svona vingulsháttur er bæjarstjóranum ekki til sóma. Engin borgarlína – bara línan úr Valhöll.
Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort Ármann í Kópavogi og Haraldur í Mosfellsbæ láta beygja sig með sama hætti og Ásgerður.
Rtá.